Sigríður Á. Andersen

View Original

Hreinsum vaskinn

Nú stefnir í sögulega stund í ríkisfjármálum. Ríkisstjórnin hefur kynnt áform um að lækka almennan virðisaukaskatt úr 24,5% í 22,5% og fækka um leið undanþágum. Gangi það eftir mun virðisaukaskattur aldrei hafa verið lægri frá því hann tók við af söluskattinum árið 1990. Í margra ára undirbúningi að þeirri miklu kerfisbreytingu hafði þó verið miðað við að vaskurinn yrði lægri, 22%. Lög sem samþykkt höfðu verið tveimur árum áður um hinn nýja virðisaukaskatt kváðu á um 22% skatt. Viku áður en lögin áttu að taka gildi var margra ára vinnu við framtíðarskipulag þessarar skattheimtu ýtt til hliðar og vaskurinn hækkaður í 24%, bætt við öðru 14% virðisaukaskattsþrepi og kynntar til sögunnar fleiri undanþágur frá skattinum en upphaflega var gert ráð fyrir. Síðan hafa fjölmargar breytingar verið gerðar á virðisaukaskattskerfinu. Reyndar svo margar að líklega eiga einhverjir erfitt með að meta hvort skattbyrði þeirra hafi í raun hækkað eða lækkað.Skattgreiðendur eru vanir því að við þá sé sagt að nú sé ekki tími fyrir skattalækkanir. Árferðið leyfi það ekki. Í niðursveiflu er sagt að styrkja þurfi innviði svo hægt sé að takast á við samdrátt á vinnumarkaði og félagsleg vandamál sem oft fylgja versnandi efnahagsástandi. Þessi málflutningur er skiljanlegur ef menn vilja alls ekki gera mönnum og fyrirtækjum það kleift að takast á við áskoranir í efnahagslífinu með því að auka ráðstöfunarfé heimila og fyrirtækja. Í niðursveiflu er helst hætta á atvinnuleysi sem er ein mesta meinsemd í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Atvinnuleysi verður ekki leyst annars staðar en í atvinnulífinu. Þess vegna á skattalækkun að vera sérstaklega til skoðunar þegar harðnar á dalnum.Þegar vel árar í efnahagslífinu, líkt og núna, hættir mönnum til að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Þá er sagt að skattalækkun myndi bara auka á »þensluna«. Þeir sem þessu halda fram líta fram hjá því að ein tiltekin króna hefur ekki meiri áhrif á þenslu ef hún er í höndum einstaklingsins sem vann sér hana inn fremur en höndum ríkisins. Nema síður sé að mínu mati. Króna í höndum ríkisins er jafnvel meira til þess fallin að valda þenslu en ef hún fengi að vera í friði hjá eiganda sínum. Látum vera þótt ríkið ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir sem mögulega hafa setið á hakanum en sem kalla á einskiptiskostnað. Hættan er hins vegar sú að fjárveitingarvaldið láti undan kröfum um ný viðvarandi verkefni sem valda þenslu um ókomna tíð.Með því að lækka virðisaukaskattinn niður í 22,5% mun kaupmáttur aukast og vísitala neysluverðs lækka um 0,4%.

Virðisaukaskatturinn verður lægri en hann hefur nokkru sinni verið.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. apríl 2017.