Hundraðshlutinn sem hvarf
Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku að virðisaukaskattur, vörugjöld og tollar verði lækkuð eða lögð af þann 1. mars á næsta ári. Samtals ætla menn að lækkunin muni nema 7 milljörðum króna á heilu ári, eða nærri 23 þúsund krónum fyrir hvern landsmann. Það munar um minna.Ríkisstjórnin hefur jafnframt tilkynnt að aukið verði við vegaframkvæmdir á næstu árum þar sem allt stefni í að þenslan svonefnda sé að minnka og draga muni úr verðbólgu á næstunni. Fleiri verkefni bíðaÞað er gott að skattar lækki og best að þeir geri það almennt. Ein leið til að lækka skatta almennt og draga úr mismunun er að afnema alla tolla. Tollar leggjast á vörur sem koma frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins og mismuna þar með innflutningi eftir því hvaðan hann kemur. Íslenskir neytendur eru þar með sviptir hluta af þeim ábata sem þeir gætu notið af samkeppni frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins. Undanfarin misseri hefur staða bandaríkjadals til að mynda verið veik gagnvart krónunni og því rakið í mörgum tilfellum að kaupa bandarískar vörur. En margar þeirra bera tolla sem evrópskar vörur gera ekki. Þetta ruglar verðskyn okkar neytenda enda eru tollarnir ekki sýnilegir okkur á nokkurn hátt. Tollarnir skila ríkissjóði aðeins 1% af heildartekjum hans og því liggur beint við að fella þá niður. Hundraðshlutinn þinnEins og menn muna greip ríkisstjórnin til annarra efnahagsráðstafana í byrjun sumars. Þær ráðstafanir voru gerðar að atbeina Alþýðusambands Íslands og fólu meðal annars í sér að afnema áður lögfesta lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Hin lögfesta lækkun um næstu áramót átti að verða 2% en með samkomulaginu við ASÍ var lækkunin ákveðin 1% en persónuafsláttur hækkaður til mótvægis. Margir urðu forviða að ASÍ hefði slík áhrif á lýðræðislega kjörna ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hafði lofað þessari skattalækkun fyrir síðustu kosningar og kjósendur hans eðlilega gengið að þeim vísum því flokkurinn á sér ágæta sögu hvað helstu kosningaloforð snertir. Menn bentu með réttu á að flokkurinn hefði ríkari skyldum að gegna við kjósendur sína en ASÍ.Nú þegar aðstæður hafa að því er virðist breyst til batnaðar í efnahagslífinu hljóta sjálfstæðismenn að tryggja að þessi skattalækkun skili sér til almennings áður en kjörtímabilið er úti. Verkefni næsta kjörtímabils Á næsta kjörtímabili þarf svo auðvitað að halda áfram að lækka tekjuskatt einstaklinga. Það er raunhæft markmið að ríkið lækki sinn hlut niður í sama hlutfall og ríkið leggur á fyrirtæki eða 18%. Þar með yrði tekjuskattur einstaklinga orðinn um 30% að útsvari sveitarfélaga meðtöldu. Það er forsendan fyrir því að hægt verði að taka upp jafnan og flatan skatt á allar tekjur í framtíðinni að tekjuskattshlutfall einstaklinga lækki jafnt og þétt næstu árin.
Greinin birtist í Viðhorfi í Blaðinu 18. október 2006