Hvað eru fimm dagar?
Hinn 1. apríl sl. tók gildi reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 355/2021, dags. 30. mars 2021, sem kveður á um hörðustu aðgerðir sem gripið hefur verið til frá því fyrst varð vart við Sars-Cov-2 veiruna hér á landi. Það í sjálfu sér orkar tvímælis, í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í núna með stóran hluta viðkvæmra bólusetta og mun meiri þekkingu á veirunni og meðhöndlun hennar en við höfðum í upphafi.
Reglugerðin kveður m.a. á um vistun þeirra sem koma yfir landamærin til Íslands frá nánar tilgreindum löndum í svokölluðum sóttvarnahúsum í 5 daga. Þá kveður reglugerðin einnig á um að viðkomandi þurfi að greiða 10 þúsund krónur fyrir hverja nótt í sóttvarnahúsi. Um nauðsynlega lagaheimild til þessarar vistunar vísar reglugerðin til ákvæða sóttvarnalaga, nr. 19/1997 eins og lögin eru orðin eftir breytingar sem alþingi gerði á þeim í febrúar sl.
Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvernig mati á nauðsyn þessara aðgerða hefur verið háttað. Ekki liggur fyrir opinberlega minnisblað sóttvarnalæknis að þessu leyti, hafi það verið skrifað. Í fréttum hafa sóttvarnayfirvöld þó vísað til þess að brögð hafi verið að því menn sem hingað koma brjóti þá sóttkví sem þeim er gert að dvelja í á eigin vegum. Brot fólks í fyrndinni geta þó ekki verið grundvöllur að frelsissviptingu annarra manna síðar. Mikilvægt er að stjórnvöld leggi fram gögn um þá skoðun sem fram hefur farið á ástæðum þess að gripið er til þessara aðgerða á þessum tímapunkti, mati á væntum árangri aðgerðanna og miðað við óbreytt ástand á landamærum. Og allt þetta með tilliti til ríkra borgaralegra réttinda.
Ég geri athugasemdir við tvennt í þessari reglugerð. Annars vegar við vistun í sóttvarnahúsi og hins vegar við gjaldtökuna. Ég tel að ekki sé fyrir hendi ótvíræð lagaheimild til þessara tveggja þátta. Um nauðsyn þess að lagaheimild sé skýr þegar annars vegar er vegið að frelsi borgarana með frelsissviptingu á borð við þá sem hér lögð til og hins vegar lagt á gjald fyrir þjónustu sem ekki er valfrjáls ætla ég ekki að fjölyrða. Hún er grundvöllur réttarríkisins, margáréttuð í íslenskri dómaframkvæmd og ætti að vera óumdeild meðal íslenskra lögfræðinga, og þótt víðar væri leitað.
En að vistun í sóttvarnahúsi
Í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum var ekki fjallað sérstaklega um sóttvarnahús að öðru leyti en því að til þeirra var vísað í þeim tilvikum er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví. Þá kvað frumvarpið á um að heimilt væri að vista þá í sóttvarnahúsi, sbr. 14. gr. laganna. Fyrir lagabreytinguna var vísað til spítala í þessum tilvikum. Velferðarnefnd gerði nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. þá að bæta við skilgreiningu á sóttvarnahúsi og í henni er skýrt kveðið á um að sóttvarnahús sé ívilnandi úrræði fyrir borgarana, þ.e. að þangað geti þeir leitað sem ekki vilja eða geta haldið sóttkví heima hjá sér.
Sóttvarnahús: Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.
13. tl. 1. gr. sóttvarnalaga.
Um heimild til þess að skylda menn til vistunar í sóttvarnahúsi er hins vegar einungis í þeim tilvikum þegar smitaðir eða þeir sem grunaðir eru um að vera smitaðir neita samstarfi um sóttkví, sbr. 5. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga.
Umræða í velferðarnefnd um sóttvarnahús var öll á einn veg, á þann hátt að tryggja ætti borgurum samastað ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en alls ekki að skylda nema þá smituðu eða grunuðu sem neita samstarfi um sóttkví.
Jafnmikil skerðing á borgaralegum réttindum og vistun í sóttvarnahúsi er, kallar á afar skýra lagaheimild, texta sem segði hreinlega „Ákveða má með reglugerð að vista fólk í sóttvarnahúsi óháð því hvort það er smitað eða ekki og óháð því hvort það geti fullnægt skyldu til sóttkvíar í eigin húsnæði.“ Ráðherra hafði vel ráðrúm til þess að bera undir þingið slíkt lagafrumvarp og leggja þá um leið nauðsynleg gögn fyrir þingið til að vega og meta nauðsyn á þessu úrræði. Mér er til efs að ég hefði samþykkt slíkt frumvarp, miðað við þau gögn sem ég hef séð um þróun faraldursins, en ekki er útilokað að þingið hefði samþykkt ákvæði sem þetta.
Það er hins vegar einnig vert að hafa í huga að komið er upp verulegt misræmi í aðgerðum gagnvart þeim sem sannarlega greinast smitaðir innanlands en mega dvelja heima hjá sér og hinna sem koma inn til landsins og ekkert liggur fyrir um að séu smitaðir en verða að sæta vistun í sóttvarnahúsi við jafnvel verri aðstæður en gæsluvarðahaldsfangar.
En að gjaldtökunni
Ísland á aðild að alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni. Skv. 40. gr. hennar hafa ríki skuldbundið sig til þess að velta ekki kostnaði af sóttvarnaaðgerðum yfir á ferðamenn. Sérstakt bann er lagt við gjaldtöku fyrir sóttkví. Með breytingum á sóttvarnalögunum í febrúar var lagt til að í 17. gr. laganna verði orðuð með beinum hætti sú meginregla alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar að ekki skuli tekið gjald af ferðamönnum fyrir heilbrigðisráðstafanir á grundvelli nema þær séu ferðamanni til hagsbóta. Þó var brugðið frá alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni þannig að gert var ráð fyrir að heimild til gjaldtöku af aðgerðum væri einnig til staðar þegar yfirvofandi eða bráð ógn sé við lýðheilsu þótt aðgerðirnar séu ekki til hagsbóta fyrir þá sem verða fyrir. Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta atriði að
við mat á því hvort heimilt sé að grípa til gjaldtöku í þessum tilvikum þarf í senn að vera yfirvofandi ógn við lýðheilsu og þær ráðstafanir sem stjórnvöld grípi til séu svo umfangsmiklar að það réttlæti að þeir sem ráðstafanirnar beinast gegn taki þátt í greiðslu kostnaðarins. Þannig ætti almennt ekki að beita þessu ef ráðstafanir beinast einungis gegn litlum hópi ferðamanna en mögulega ef ráðstafanir fela í sér t.d. læknisskoðun á öllum eða flestum sem koma til landsins með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið.
Þetta frávik frá alþjóðaheilbrigiðsmálareglugerðinni var hugsað til þess að renna stoðum undir t.d. gjaldtökuna vegna skimunar sem viðhöfð var á landamærum sumarið 2020 sem var ekki í samræmi við alþjóðaheilbrigðismálareglugerðina.
Þannig liggur fyrir að alþingi hefur kveðið á um frávik frá skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi og ekkert að því í sjálfu sér. Hins vegar er ansi bratt að telja að hér sé komin skýr gjaldtökuheimild fyrir vistun í farsóttarhúsi. Hvorki er til staðar yfirvofandi ógn (eins og kann að vera til staðar í upphafi farsóttar) né er þessi tiltekna sóttvarnaaðgerð almenn eins og áskilið er í greinargerð. Það sem þó skiptir mestu máli í þessu tilliti er að þessi heimild 17. gr. laganna vísar til aðgerða sóttvarnalæknis skv. 13. gr. laganna og þar ekkert vikið að dvöl í sóttvarnahúsi.
Fimm dagar
Þær eru afar ábyrgðarlausar athugasemdirnar sem birtast á samfélagsmiðlum um hversu léttvæg þessi frelsisskerðing er. Þessum röddum svipar til þeirra sem af og til kalla sífellt eftir harðari refsingum og finnst í raun aldrei nóg að gert. Mér er til efs að þeir sem svona tjá sig átti sig á áhrifum frelsissviptinga almennt og hversu stutt þær þurfa að vara til að hafa veruleg áhrif. Fimm dagar í 20-30 fm herbergi, án þess að geta svo mikið sem opnað glugga, hafa án nokkurs vafa sálræn áhrif á flest venjulegt fólk, mögulega líkamleg áhrif. Jafnvel „hörðustu“ mönnum í þessum skilningi, góðkunningjum lögreglunnar, er ekki ósárt um skamma dvöl í gæsluvarðahaldi og njóta þeir þó þar gjarnan samvista við annað fólk og ríkari réttinda en frést hefur frá sóttvarnahúsi.
Tilefnislaust
Íslendingar hafa sinnt persónulegum sóttvörnum með frábærum árangri. Eina alvarlega hópsmitið hér á landi varð í heilbrigðiskerfinu. Það er bara ekkert tilefni til þess að nota gaddavír og klefa til sóttvarna á Íslandi.