Sigríður Á. Andersen

View Original

Hvað verður þá um börnin?

Bólusetningar eru að virka vel og eins og vonir stóðu til. Þær draga úr alvarlegum veikindum. Þegar nánast öll þjóðin, 16 ára og eldri, er orðin bólusett er óskynsamlegt að viðhafa opinberar sóttvarnaaðgerðir.

Í þessu ljósi eru börnin eina hálmstrá hinna stjórnlyndu sem geta ekki hugsað sér að láta af forræðishyggjunni. Einhverjir þeirra halda því nú fram að börn séu í sérstakri hættu vegna afbrigða veirunnar. Þessu var t.d. haldið fram á fundi velferðarnefndar alþingis sem ég sat í vikunni sem er að líða. Ég kallaði eftir gögnum sem þessar fullyrðingar byggja á og hef nú fengið. Ekkert í þeim rennir stoðum undir fullyrðingar um að börnum stafi meiri hætta af einu afbrigði umfram önnur. Allt er þetta mjög umdeilt meðal erlenda sérfræðinga. Fyrir liggur hins vegar að börnum stafar afar lítil hætta af veirunni sem nú gengur. Svo lítil reyndar að margir helstu sérfræðingar í bæði smitsjúkdómum og barnalækningum mæla gegn því að svo komnu máli að bólusetja börn. Ég ætla hins vegar ekki að hafa skoðun á því. Trúlega er áhættan lítil á báða bóga, þ.e. áhættan af veirunni á móti áhættunni af aukaverkunum vegna bóluefna.

Einbeitum okkur hins vegar að því núna að lækna veika og vernda viðkvæma en ekki að skima einkennalaust fólk. Að skima einkennalaust fólk kostar fé sem verður þá ekki notað í aðra heilbrigðisþjónustu.

Ég fagnaði í stuttan tíma orðum sóttvarnalæknis í útvarpsþættinum Sprengisandur í dag um að nú verði að reyna að ná fram hjarðónæmi gegn kórónuveirunni með því að leyfa henni að hafa sinn gang en um leið að reyna að koma í veg fyrir alvarleg veikindi með því að hlífa viðkvæmum hópum. Þegar þetta er skrifað hlusta ég hins vegar á sjónvaprsfréttir RÚV þar sem hann ber orð sín um hjarðónæmið til baka. Nú yrði bara að endurbólusetja viðkvæmt fólk. Það kom ánægjulega á óvart að fréttamaðurinn spurði „En er hjarðónæmi þá ekki lengur markmiðið?“. Því svaraði sóttvarnalæknir með vísan til enn frekari bólusetninga!

Á fundi velferðarnefndar í vikunni spurði ég sérfræðingana hvort ónæmið væri betra, það sem kæmi eftir bólusetningu eða það sem kæmi í kjölfar smits. Mér var svarað þannig að smit hefði í för með sér sterkara ónæmissvar. Það væri líka komið í ljós með því að fullbólusettir væru að greinast smitaðir í nokkrum mæli nú. En er þá ekki skynsamlegt, nú þegar nánast allir Íslendingar eru bólusettir og helst þeir sem út af standa sem vitað er að veikjast nánast ekkert (hraust börn og ungmenni) að leyfa einmitt veirunni að hafa sinn gang? Er það ekki einmitt samspil bólusetninga og náttúrulegra varna (smita) sem byggir upp hjarðónæmi? Fá dæmi eru í sögunni um að hjarðónæmi hafi náðst með bólusetningu eingöngu. Kári Stefánsson vék að þessu einmitt í vikunni og hvatti menn til að horfast í augu við þetta með æðruleysi að vopni. Ég get þá altént fagnað orðum Kára, a.m.k. þangað til að hann tekur líka upp á því að snúast um sjálfan sig og skipta um skoðun. Nema hann nái þá heilum pírúett, sem er ekkert útilokað. Þá kæmu sinnaskiptin út á sléttu.

Það hefur aldrei verið markmið stjórnvalda að útrýma veirunni úr samfélaginu. Það hefur alltaf verið fullkomlega óraunhæft nema með stórkostlegum fórnarkostnaði. Mistök sóttvarnalæknis að mínu mati hafa verið þau að tala ekki til almennings mun skýrar um þetta, þótt ég sé sannfærð um að það hafi verið hans skoðun allan tímann. Í dag gerði hann það þó svo eftir var tekið. Hann hefur ekki enn tekið snúning á þessu í dag. En dagurinn er svo sem ekki úti.