Sigríður Á. Andersen

View Original

Hvað með tóbakið?

Það er ekki beint geðshræring sem einkennir umræðuna um fyrirliggjandi lagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar um afnám einkasölu ríkisins á áfengi. Viðbrögð andstæðinga frumvarpsins bera miklu frekar keim af sýndarmennsku. Það virðist lítil sannfæring fyrir gildandi fyrirkomulagi við áfengissölu. „Og hvað verður um börnin?“ er spurt þegar allt annað þrýtur.Staðreyndin er sú að með frumvarpinu er ekki sérstaklega verið að auka aðgengi að áfengi eins og andstæðingar þess halda fram. ÁTVR hefur sjálf markvisst aukið aðgengi að áfengi. Fjölgun útsölustaða ÁTVR og lenging afgreiðslutíma til samræmis við hefðbundinn afgreiðslutíma matvöruverslana má nefna sem dæmi. Gríðarlegur metnaður í vöruúrvali, að eigin sögn, er einnig liður í auknu aðgengi sem ÁTVR hefur forgöngu um. Þá hefur ÁTVR það sem yfirlýst markmið að auka áhuga viðskiptavina á að tengja saman vín og mat „öllum til ánægju“ eins og þar stendur en án útskýringa. Þá má heldur ekki gleyma því að innflutningur á áfengi hefur verið frjáls í rúman áratug og því getur hver sem er, 20 ára og eldri, flutt inn vín til einkanota og það gera fjölmargir. Sumir beint frá býli eins og nú er svo mjög móðins. ÁTVR rekur þar að auki vefverslun sem heimsækja má á þeim 97% heimila sem eru nettengd. Ríkisreksturinn um smásölu áfengis hefur þannig ekkert með það að gera að takmarka aðgengi að áfengi.Þá stenst það enga skoðun að halda þurfi í núverandi fyrirkomulag í ljósi þess að útsölustaðir ÁTVR séu tekjulind fyrir ríkið. Tekjur ríkisins af sölu áfengis eru aðallega af skattheimtu og ekki er boðað að það muni breytast, því miður. Sá milljarður sem ÁTVR skilar þess utan er meðal annars vegna tóbaksheildsölu. Já, vel á minnst. Ef hægt er að finna frumvarpi Vilhjálms Árnasonar eitthvað til foráttu þá er það sinnuleysið gagnvart tóbakinu. Áfram er gert ráð fyrir einkaleyfi ríkisins til heildsölu á tóbaki. Einkaaðilar hafa frá árinu 2004 flutt tóbakið inn og selt ÁTVR í heildsölu sem selur svo aftur í heildsölu til smásala! Þetta er efni í súrrealískan kveðskap en er dagsatt.Þeir sem vilja áfram ríkisrekstur um áfengissölu eiga bara að segja það beint út, að þeir vilji ríkisrekstur per se. Engar forsendur eru fyrir öðrum rökum af þeirra hálfu. Um leið væri gaman ef þeir hinir sömu útskýrðu afstöðu sína til lyfjasölu, bensín- og gassölu, innflutnings á eldspýtum o.s.frv. Þess er hins vegar vænst að þingmenn taki sjálfa sig á orðinu og taki málefnalega, faglega og nútímalega afstöðu til þingmálsins. Börnin munu spjara sig eins og ég mun fjalla um í næsta pistli.

Ætli ummælin á alþingi 1988 verði endurtekin nú? „Það verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi,“ sagði þingmaður sem greiddi atkvæði gegn bjórnum, í fullri alvöru.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. nóvember 2015.