Sigríður Á. Andersen

View Original

Íslensku vegafé slátrað í Rotterdam

Það er staðreynd að starfsáætlun alþingis tekur mjög mikið mið af væntingum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Tilhneiging er til að veita lagafrumvörpum alþings meira vægi en málum sem þingmenn leggja fram. Húsnæðismálaráðherra viðraði þá skoðun sína til að mynda um daginn að vel kæmi til greina að framlengja störf þessa þings fram á sumar til þess eins að koma hennar málum, sem hún hefur reyndar ekki enn lagt fram, á dagskrá. Af 71 þingmannafrumvarpi hefur aðeins eitt verið samþykkt og, það sem meira máli skiptir, einungis helmingur frumvarpanna verið ræddur í þingsal. Þingmannamálin eru alls konar og misbrýn en flest verðskulda þau einhverja umræðu löggjafans.Af skipulögðu handahófi vísa ég til frumvarps sem ég og fleiri höfum lagt fram sem ég tel afar brýnt að alþingi samþykki á þessu þingi því það varðar ríkissjóð miklu. Það er nefnilega ótrúlegt en satt að fé sem ætti að nota í vegagerð á Íslandi er flutt úr landi og notað sem niðurgreiðsla á innkaupsverði lífolíu frá Hollandi. Um er að ræða mörg hundruð milljónir á ári.Á eldsneyti á bíla eru lagðir háir sérstakir skattar, olíugjald og bensíngjald, auk kolefnisgjalds og virðisaukaskatts. Fyrrnefndu sköttunum er ætlað að standa undir vegagerð og viðhaldi. Árið 2010 lögfesti hreina vinstristjórnin ákveðnar undanþágur frá þessum gjöldum. Undanþágan gildir fyrir á eldsneyti á borð við lífolíur. Með lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum frá árinu 2013 voru seljendur eldsneytis svo skyldaðir til að selja ákveðið magn af endurnýjanlegu eldsneyti á borð við lífdísil og etanól.Seljendur eldsneytis eiga ekki annan kost en að uppfylla þessa kvöð með því að flytja inn mjög dýrt lífeldsneyti til íblöndunar í hefðbundið eldsneyti. Það liggur því fyrir að þessi skattaívilnun hefur nær öll runnið úr landi til erlendra framleiðenda á lífolíu. Ríkissjóður niðurgreiðir þessi innkaup um 70 krónur á hvern lítra lífolíu. Samtals er um að ræða 600 til 800 milljónir á ári. Það er svipuð fjárhæð og Reykjavíkurborg varði til viðhalds gatna á síðasta ári. Þetta er grátleg sóun fjármuna, ekki síst þegar litið er á bágborið ástand gatna í höfuðborginni og þjóðvega víða um land. Þar kæmi þetta fé að góðum notum.Ísland er þegar í fremstu röð í heiminum þegar kemur að nýtingu hagkvæmra endurnýjanlegra orkugjafa á borð við fallvötn og jarðvarma. Það er óskiljanlegt að stjórnvöld í ríki með 75% endurnýjanlega orku niðurgreiði innkaup á óhagkvæmum endurnýjanlegum orkugjöfum frá ríki sem nýtir nær enga slíka.Frumvarp okkar þingmannanna miðar að því að stöðva þessa vitleysu.

>>Fé sem ætti að verja í gatnagerð er notað til að niðurgreiða innkaup á lífolíum.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. maí 2015.