Sigríður Á. Andersen

View Original

Lífið er á uppleið

Ég er fædd 21. nóvember 1971 og hefði ekki viljað fæðast svo mikið sem degi fyrr. Þegar ég sé hvað börn í dag hafa það almennt gott og hvað margt hefur breyst til hins betra frá því ég man fyrst eftir mér þá ósjálfrátt fer ég að kenna í brjósti um kynslóðirnar á undan mér, og jafnvel mína kynslóð líka. Aumingja fólkið sem er ekki nema 5 árum eldra en ég og rétt missti af því að kynnast tölvum á skólagöngu sinni. Ef það hefur ekki síðar farið að vinna með tölvur hefur ekki verið hlaupið að því fyrir það að tileinka sér tölvutæknina og alla þá möguleika sem hún hefur upp á að bjóða. Sjálf hef ég alveg gefið upp á bátinn að skilja alla þá möguleika sem í boði eru fyrir flutning á sjónvarpsefni inn í viðtækið mitt. Yngra fólk en ég hljómar eins og það átti sig á muninum á ADSL, rafmagnslínum og einhverju þráðlausu fyrirbæri í þessu sambandi. Mikið er það heppið að alast upp á þessum tímum tækni og vísinda.Það hafa ekki bara orðið framfarir í vísindum. Ruglið er einnig á undanhaldi þótt vissulega sé enn nóg af því. Af hverju máttu símasnúrur ekki vera lengri en hálfur metri þegar ég var að alast upp? Hví var yfirleitt einhver á móti lagningu síma um landið? Og múgsefjunin, hefur ekki eitthvað dregið úr henni? Eftir Millet-úlpuæðið á 9. áratugnum hef ég að minnsta kosti ekki orðið vör við sambærilegt hópefli meðal unglinga. Auðvitað eru alls kyns tískufyrirbrigði í gangi en unga fólkið virðist vera miklu sjálfstæðara í hugsun og fasi en Millet-úlpukynslóðin mín. Reykingar og áfengisneysla unglinga er dæmi um ósið sem nánast hefur lagst af. Unglingar í dag eru upp til hópa betur upplýstir og skynsamari en áður. Og úlpuúrvalið mun meira. Allt afleiðing framfara í vísindum og tækni.Samt eru margir sem ekki bara sjá fortíðina í rósrauðum bjarma heldur leggja sig einnig í líma við að finna nýja tímanum allt til foráttu. Þeir eru svo háværir að manni hættir til að gleyma því að þeir hafa aldrei haft rétt fyrir sér. Rafmagnið hefur til að mynda verið undirstaða hagsældar mannkyns. Samt hafa þeir horn í síðu háspennustöðva og rafmagnsmastra, telja þau tákn um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Hvað vill þetta fólk? Draga úr notkun rafmagns? Sér það ekki hvílíka farsæld rafallinn hefur fært okkur?Til að kunna að meta það sem við höfum í dag er gagnlegt að líta til baka. Það gerir einmitt Matt Ridley í bók sem nýlega kom út á íslensku, Heimur batnandi fer. Í bókinni er framförum eins og rafmagninu og skordýraeitri lýst á skemmtilegan hátt og það sett í samhengi við hagsæld og málflutning bölsýnismannanna.Nei, ég hefði ekki viljað fæðast degi fyrr.

Það er erfitt að finna svæði í heiminum þar sem fólk hefur það verr í dag en árið 1955, segir Matt Ridley. Hvað lífsskilyrði varðar er fátt sem ekki hefur batnað með tímanum.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 23. nóvember 2014.