Sigríður Á. Andersen

View Original

Litið um öxl

Reglugerð um skyldu til að dvelja á sóttkvíarhótel var dæmd ólögmæt.

Nýjasta útgáfa Nordisk Administrativt Tidsskrift (sem er norrænt fræðirit á sviði stjórnsýsluréttar) er helguð stjórnsýslunni á Norðurlöndum á tímum Covid. (Covid og krisehantering I de nordiske forvaltningene).  Ég var beðin um að rita grein um Ísland að þessu leyti.

Greinina ritaði ég frá mínu sjónarhorni sem þingmaður ríkisstjórnarflokks á þessum tíma og með reynslu frá ríkisstjórnarborði með því fólki sem sat þar enn. Greinin er fjallar auk þesss um nokkur tiltekin lögfræðileg álitaefni. Í grein sem þessari er ekki rými til að fjalla um allar Covid aðgerðirnar sem gripið var til (hvorki þvingunaraðgerðirnar né hinar efnahagslegu) en að mínu mati á spurningin um lögmæti við um nánast þær allar.

Sóttvarnalögum var breytt seint um síðir. Þótt gætt hafi verið að því að nefna það hvergi að ástæða hafi þótt til að gera það til að renna stoðum undir aðgerðir sem þegar hafði verið gripið til má ljóst vera að sumar þeirra aðgerða sem gripið hafði verið til áttu sér ekki lagastoð.

Í greininni rek ég þær reglur sem settar voru um helstu þætti; sóttkví og einangrun, samkomutakmarkanir og ferðatakmarkanir.

Ég fjalla sérstaklega um þrjár covid aðgerðir:

  • Þegar sóttvarnayfirvöld nýttu sér kreditkortafærslur til að finna fólk sem hafði verið á bar.

  • Þegar heilbrigðisráðherra gaf út reglugerð sem skipaði fólki sem kom frá tilteknum löndum í sóttkví (og eftir atvikum einangrun) á sóttvarnahóteli ríkisins. Þrátt fyrir ábendingar um vafa um lögmæti þessa (minnisblað dómsmálaráðuneytis) var reglugerðinni framfylgt m.a. af lögreglu. Héraðsdómur féll sem dæmdi reglugerðina ólögmæta. Ríkið áfrýjaði en Landsréttur taldi ekki lengur hagsmuni í málinu þar sem fólkið hafði þá þegar verið leyst úr prísundinni.

  • Reglugerð samgönguráðherra sem skipaði Íslendingum að fara í PCR erlendis fyrir flug heim, ella fá ekki inngöngu um borð flugvélarinnar. Hér var ekki um að ræða reglugerð án lagastoðar heldur reglugerð sem fór beinlínis gegn skýrum lagatexta (ein fyrsta lagasetningin sem fjallaði um fyrirhugaðar Covid-aðgerðir) sem undanþáði Íslendinga frá kröfu um PCR erlendis. Þögn ráðuneytis og þvælin ummæli ráðherrans létu þúsundir Íslendinga halda það vikum saman að þessi regla væri lögmæt og jafnvel enn í gildi eftir að ráðherrann sjálfur afnam hina ólögmætu reglugerð. Ætli megi ekki áætla kostnað íslenskra ferðamann erlendis við PCR prófin hlaupa á hundruðum milljóna?

Morgunblaðið fjallaði um greinan í laugardaginn 3. september 2022.

Hér má finna tímaritið og útdrátt allra greinanna á ensku:

https://journals.oslomet.no/index.php/nat/issue/view/472?fbclid=IwAR26IZtxvRBW8ayAgQPbqYKfDTsvqlUanGSr9unZ-nq-G4-cEg691XLguSs

Og þar má finna grein mína sem er öll á:

https://journals.oslomet.no/index.php/nat/article/view/4976/4362