Sigríður Á. Andersen

View Original

Lokað fyrir lýðræðið?

Breski Íhaldsflokkurinn kemur vel út úr sveitarstjórnakosningum sem fram fóru í vikunni. Sögulegastur var þó sigur hans í kjördæminu Hartlepool en þar var kosið um þingsæti sem hingað til hefur verið í höndum Verkamannaflokksins.

Graham Brady hefur verið þingmaður breska Íhaldsflokksins frá 1997 og hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Fram til ársins 2007 skipaði hann sæti í fremstu röð Íhaldsmanna á þinginu (e. frontbencher) en frá árinu 2010 hefur hann leitt hina svokölluðu 1922 nefnd. Í nefndinni sitja þeir þingmenn sem ekki gegna ráðherrastöðum. Nefndin er áhrifamikil um málefni þingflokksins og í henni ráða almennir þingmenn Íhaldsflokksins (e. backbenchers) ráðum sínum án aðkomu þeirra þingmanna sem sitja á fremsta bekk.

Síðastliðið ár hefur reynt mjög á stjórnskipanina í fleiri löndum en á Íslandi með því að löggjafarþingin hafa verið sniðgengin við margar mikilvægar ákvarðanir sem alla jafna þurfa atbeina löggjafans. Í Bretlandi var gengið mjög á grundvallarrétt manna með ítrekuðum lokunum og með afdrifaríkum afleiðingum bæði heilsufarslegum og efnahagslegum.

Graham Brady hefur farið fyrir hópi þingmanna á breska þinginu sem hefur hvatt til vel ígrundaðra aðgerða og mats á heildaráhrifum. Hann hefur ásamt fleiri þingmönnum ekki stutt yfirgripsmiklar lokanir í Bretlandi.

Ég ætla að ræða við Graham um þróunina síðastliðið ár nú þegar hillir undir lok faraldursins og spyrja hann m.a. að því að hvort hann eigi von á því að þau tól sem notuð hafa verið af ríkisvaldinu með missterku umboði verði notuð áfram og jafnvel við ólíklegustu tilefni. Við ræðum líka ferðalög, efnahagsástandið og þessi óvæntu úrslit í Hartlepool í vikunni.

Fundurinn verður sendur út af Facebook síðu minni hér og síðar vistaður á Youtube rás minni.