Sigríður Á. Andersen

View Original

Lokaorð á fundi um stöðu hægristefnunnar

Ég var beðin að flytja lokaorð á fundi í Valhöll um stöðu hægristefnunnar hinn 8. mars 2012. Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að taka til máls eftir að Ásgeir Jóhannesson, Hannes H. Gissurarson, Jakob F. Ásgeirsson, Óli Björn Kárason og Gunnlaugur Jónsson hafa sagt sitt um tiltekið mál. En samkvæmt prýðilegri endursögn á Mises.is hafði ég þó þetta fram að færa á þessum fjölsótta og fjöruga fundi:

Sigríður benti á afar mikilvæga hluti í ávarpi sínu. Í fyrsta lagi ræddi hún um að hinn frjálsi markaður væri alls ekki fullkominn, langt frá því, og að frjálshyggjumenn ættu ekki að tala með þeim hætti. Frjáls markaður væri hins vegar lang skásti kosturinn fyrir samfélagið – viðskipti fólks, nýjungar og almenna hagsæld.Í öðru lagi lagði hún áherslu á að frjálshyggjumenn ættu ekki að samsama sig aðgerðum stjórnvalda nema að vissu marki. Þannig nefndi hún að frjálshyggjumenn ættu vissulega að beita sér fyrir einkavæðingu fyrirtækja, en ekki að líta á það sem hlutverk sitt að halda uppi vörnum fyrir þau fyrirtæki sem hafa verið einkavædd. Þau geta verið vel eða illa rekin eftir atvikum. Einnig nefndi hún skattalækkanir í þessu sambandi. Frjálshyggjumenn ættu ekki að telja sig þurfa að réttlæta sífellt skattalækkanir frá sjónarhóli félagslegrar nytjastefnu, til dæmis ættu þeir að sjálfsögðu ekki að vera hlynntir skattalækkunum vegna þess að Laffer-kúrvur sýna að tekjur ríkissjóðs myndu aukast, heldur af siðferðislegum ástæðum: fólk á sjálft tilkall til eigna sinna og tekna, en á ekki að þurfa að líða að fjármunir séu teknir af því með valdi og dreift eftir geðþótta stjórnmálastéttarinnar.Kjarninn í boðskap hennar var sá að meginreglur frjálshyggjunnar standa fyrir sínu, óháð stuðlum og línuritum.