Sigríður Á. Andersen

View Original

Lýðræði á borði en ekki bara í orði

Það er sama hvað hver segir um ástandið í stjórnmálunum, neikvætt viðhorf til stjórnmálamanna eða alþingis sem vinnustaðar. Staðreyndin er sú að það er meira framboð af fólki til þátttöku í stjórnmálum heldur en eftirspurn og hart barist um örugg þingsæti flokkanna. Þetta reyndum við í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík um síðastliðna helgi. Hefðbundin prófkjör eru ein leið við val á frambjóðendum flokkanna við kosningar. Þar fá allir flokksmenn tækifæri til þess að hafa áhrif á lista flokksins. Þetta er lýðræðislegasta aðferðin við val á frambjóðendum.Aðrar leiðir eru mögulegar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt þær líka. Kjörnefnd um 15 manna getur raðað á lista. En þá þarf að velja kjörnefndina og það höfum við gert annars vegar með kosningu innan afmarkaðs hóps flokksmanna og hins vegar með tilnefningu af hálfu kjörinna stjórna stofnana flokksins. Þriðja leiðin sem farin hefur verið liggur á milli þessara tveggja. Hún var farin í Norðausturkjördæmi í síðustu viku. Þar kaus kjördæmisráð í efstu sæti. Fyrst var kosið í fyrsta sæti, svo í annað og svo koll af kolli. Kosturinn við þessa leið er að tækifæri gefst til þess við kosningu í neðri sæti að taka tillit til niðurstöðu um efri sæti, hafi menn sérstök sjónarmið að þessu leyti. Þótt menn kunni stundum að verða óánægðir með niðurstöðuna þá verður ekki annað sagt en að fyrirkomulag allra þessara leiða sé í sjálfu sér fyrirsjáanlegt, gagnsætt og lýðræðislegt.Nú finna menn prófkjöri okkar í Reykjavík það helst til foráttu að þátttakan hafi verið lítil, einkum í samanburði við fyrri ár. Jú, óneitanlega hefði verið gaman ef fleiri hefðu sýnt því áhuga að raða okkur frambjóðendum upp. Það tóku þó um 3.500 manns þátt sem er langt umfram það sem nokkur annar stjórnmálaflokkur á Íslandi getur vænst. Píratar gátu tekið þátt í forvali síns flokks úr baðkarinu heima hjá sér en komast samt ekki með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana. Nú hefur reyndar komið á daginn að forval Pírata hafði ekkert að segja um röðun á lista, a.m.k. ekki í fyrstu atrennu sem var gerð ógild og kosið á nýjan leik. Nýi ESB-flokkurinn felur 3-7 manna nefnd, sem skipuð er af flokksstjórninni, að raða frambjóðendum á lista. VG styðst nú við uppstillingu eftir dræma þátttöku í forvali fyrri ára.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr langstærsta hreyfingin í stjórnmálum á Íslandi. Við þingmenn og aðrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eigum hauk í horni í flokksmönnum. Með þeim og með góðum árangri af starfi flokksins í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili munum við tryggja Sjálfstæðisflokknum fylgisaukningu í næstu kosningum.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. september 2016. - saa@althingi.is