Sigríður Á. Andersen

View Original

Mýrarljós í loftslagsmálum

Nýlega barst mér svar umhverfisráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi um skiptingu losunar koltvísýrings hér á landi. Í svarinu kemur fram að gróðurhúsalofttegundir myndast í miklu magni eftir að votlendi er ræst fram. Af framræstu landi stafa því 72% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Til samanburðar er hlutur fólksbíla í heildarlosun tæp 4% og sjávarútvegs um 3%.Þessi mikla losun frá framræstu landi skýrist af því að þegar vatni er veitt burt úr mýrunum á súrefni greiðari leið að lífmassanum sem þar hefur safnast um aldir. Þegar súrefnið gengur í samband við lífmassann myndast gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegundanna koltvísýrings (CO2) og hláturgass (N2O). Hér er því um að ræða beina losun gróðurhúsalofttegunda, rétt eins og þegar steinolíu er brennt í þotu með gesti á leið á loftslagsráðstefnu.Tölurnar í svari ráðherrans um þessa miklu losun eru samkvæmt nýjasta mati á losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi í leiðbeiningum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna IPCC.Það er því mjög miður að í upplýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur dreift til fjölmiðla að undanförnu eru þessar nýjustu og nákvæmustu upplýsingar um losun frá framræstu landi ekki notaðar. Í glærukynningu ráðuneytisins fyrir fjölmiðla í síðustu viku til að mynda er losun frá framræstu landi sögð vera núll, engin.Nú þegar kallað er eftir aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum er hins vegar mikilvægt að réttar upplýsingar séu lagðar til grundvallar. Ég veiti því athygli að sumir þeir sem ákafast krefjast 40% samdráttar í losun nefna nær eingöngu samgöngur þegar þeir eru inntir eftir því hvar eigi að draga saman. Það er hins vegar ljóst af svari ráðherrans að kostnaðarsamar aðgerðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá bílum hafa lítið að segja þar sem fólksbílaflotinn ber aðeins ábyrgð á tæpum 4% losunarinnar. Það er útilokað að heimilin í landinu verði látin bera himinháan kostnað vegna slíkrar erindisleysu.Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísi 1. desember 2015.