Sigríður Á. Andersen

View Original

Nefnd um meira en Evrópumál

Sjálfstæðismenn eiga ærið verkefni fyrir höndum næstu vikurnar, samhliða jólabakstrinum eins og því hefur verið lýst af formanni eins stjórnarandstöðuflokksins. Landsfundi flokksins hefur verið flýtt og af því tilefni hefur verið skipuð nefnd sem fengið hefur það hlutverk að skoða m.a. stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Nefndinni er ætlað að skila af sér skýrslu til landsfundar sem væntanlega mun í kjölfarið taka afstöðu til niðurstöður nefndarinnar. Hefur þessi nefnd verið kölluð Evrópunefnd. Sú nafngift er hins vegar ekki alveg lýsandi fyrir hlutverk hennar, að minnsta kosti ekki eins og formaður flokksins kynnti það í upphafi. Ekki bara Evrópa undirSamkvæmt fyrstu fréttum af nefndinni er henni að auki ætlað að fjalla um stöðu Íslands gagnvart einstöku ríkjum Evrópu og einnig þá kosti sem Ísland hefur í alþjóðasamstarfi almennt. Þá mun vera ætlunin að nokkrir vinnuhópar innan nefndarinnar fjalli um afmörkuð álitaefni þessu tengd, þar á meðal peningamálastjórn og framtíðargjaldmiðil. Í því sambandi er ekki gert ráð fyrir sérstakri umfjöllun um evru umfram aðra gjaldmiðla eða aðild að Evrópusambandinu umfram aðra kosti.Umræða sjálfstæðismanna um ESB er umræða um gjaldmiðilHér verður ekkert fullyrt um afstöðu sjálfstæðismanna almennt til Evrópusambandsins sem slíks. Þeir eru vissulega til sjálfstæðismennirnir sem í mörg ár hafa talað fyrir, ekki bara aðildarviðræðum heldur  inngöngu í Evrópusambandið og fært fyrir því pólitísk rök og jafnvel tilfinningaleg. Þeir hafa talið þátttöku Íslands í Evrópusambandinu æskilega út frá menningarlegu, sögulegu, stjórnmálalegu og efnahagslegu tilliti. Og vissulega er mönnum frjálst að leggja hvað sem er til grundvallar afstöðu sinni til aðildar að sambandinu, og jafnvel að telja sjálfum sér trú um að Evrópusambandshugsjónin samræmist þeim hugsjónum sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á.Það væru hins vegar ýkjur að segja að þessi afstaða til Evrópusambandsins sé almenn meðal sjálfstæðismanna. Í því félagsstarfi innan flokksins sem ég hef komið að í meira en tuttugu ár get ég talið þau flokkssystkin mín á fingrum mér sem hafa svo heitar tilfinningar til Evrópusambandsins. Þá leyfi ég mér að draga þá ályktun af umræðu meðal sjálfstæðismanna undanfarið, formlegra og óformlegra, að afstaða sumra þeirra til sambandsins helgist einvörðungu af hagsmunum þjóðarinnar í peningamálum. Svo virðist sem þeir sjálfstæðismenn sem hafa minnstu hneigð til sambandsins hafi hana vegna gjaldmiðilsins. En það eru svo sem sjónarmið út af fyrir sig, alls ekki léttvæg, og hljóta að koma til skoðunar á þeim tímamótum sem þjóðin er á nú.Allir kostir til skoðunarKostir og gallar inngöngu í Evrópusambandið hafa legið fyrir í mörg ár og samningsstaða Íslands gagnvart sambandinu sömuleiðis. Menn þurfa því ekki að dvelja lengi við skoðun á þeim efnum en sjálfsagt er að árétta allt sem þegar liggur fyrir.Kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum hafa hins vegar ekki verið skoðaðir með markvissum hætti. Það má færa fyrir því rök að þar liggi nú einmitt hundurinn grafinn hvað afstöðu sjálfstæðismanna til Evrópusambandsins snertir. Einhliða upptaka annars gjaldmiðil eða fasttenging krónunnar við annan gjaldmiðil, ekki endilega evru, eru raunhæfir kostir sem ekki hafa verið ræddir innan flokksins, og reyndar ekki utan hans heldur. Þess vegna er það svo mikilvægt hlutverki hinnar svokölluðu Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins sé haldið til haga. Það er ólíklegt, og yrði ótrúverðugt, að landsfundarfulltrúar taki afstöðu til Evrópusambandsaðildar án þess að hafa átt þess kost að ræða það sem þyngst vegur á metunum; mögulegan framtíðargjaldmiðil.Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. desember 2008