Nýtum og njótum
Það eru vaxtarverkir í umhverfisverndarumræðunni. Vinstri flokkarnir eru eins og óþæg börn sem halda að þau geti hrifsað til sín það sem þeim hentar. Ef ekki er tekið á þeim af festu er hætt við að þeir gangi á lagið. Hér áður fyrr reyndu vinstri flokkarnir að slá eign sinni á velferðarmál með því að kenna flokka sína við alþýðuna og svo síðar að einoka jafnréttismál með því að stofna sérstakt kvennaframboð, rétt eins og jafnréttismál kæmu körlum ekki við. Ekkert af þessu stóðst tímans tönn. Nú reyna þeir við umhverfismálin. Sjálfsprottnar lausnirÁ meðan vinstri flokkarnir vilja sýnileg kerfi stofnana, eftirlits, reglugerða og annarra ríkisafskipta eru sjálfstæðismenn eðlilega hikandi við að þenja ríkisbáknið út á þessu sviði. Þetta hafa ýmsir reynt að túlka sem svo að við sjálfstæðismenn höfum ekki áhuga á umhverfismálum. Því fer auðvitað fjarri. Sjálfstæðisstefnan gerir hins vegar ráð fyrir miklu meira svigrúmi til sjálfsprottinna lausna en stefnur annarra íslenskra stjórnmálaflokka. Það á eðlilega við um umhverfismál eins og önnur mál. Þessi stefna einstaklingsframtaksins hefur reynst svo vel á öðrum sviðum að það væri undarlegt ef Sjálfstæðisflokkurinn héldi henni ekki fram í umhverfismálum. Sjálfstæðismenn vilja með öðrum orðum virkja aflið í einstaklingunum og frjálsum félögum þeirra, bæði fyrirtækjum og áhugamannafélögum, til að bæta umhverfið. Það er mikilvægt að ríkið grípi ekki fram fyrir hendurnar á þessum aðilum og það er í raun hlutverk Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir að það gerist.Skiljum ekki umhverfið frá manninumÞað eru flestir sammála um að það sé æskilegt að bæta umhverfið en gleymum ekki að það þarf líka að bæta heiminn. Stundum er óhjákvæmilegt og eðlilegt að nýta náttúruauðlindir til að bæta lífsskilyrði mannsins. Lágmarkskrafa til slíkrar nýtingar er að hún standi undir sér án ríkisstyrkja og náttúran sé verðlögð með eðlilegum hætti en ekki með því að ríkið kasti eign sinni á landið og gæði þess.Skýr og vel skilgreindur eignar- og nýtingarréttur á náttúruauðlindum eykur líkur á því að menn hugsi til framtíðar þegar ákvarðanir eru teknar um nýtingu. Verstu dæmin um sóun náttúruauðlinda hafa átt sér stað þar sem enginn eða mjög óskýr eignar- eða nýtingarréttur er til staðar og enginn hefur þar af leiðandi beina hagsmuni af því að vernda gæðin til framtíðar. Fiskveiðistjórnun með skýrum nýtingarrétti hefur til að mynda vaxið mjög fiskur um hrygg undanfarna áratugi eftir að fiskistofnar víða um heim voru ofnýttir vegna opins aðgangs. Fyrir aldarfjórðungi var fiskveiðistjórnunarkerfi eins og hið íslenska nær óþekkt en nær nú til 10 til 15% fiskveiða heimsins.Hagsæld er umhverfinu hagstæðMeð bættum lífsskilyrðum og aukinni hagsæld eykst áhugi manna á umhverfisvernd. Það er engin tilviljun að áhugi og umræða um umhverfismál nær hámarki nú um stundir. Gróska í atvinnulífinu er afar mikilvæg fyrir framgang umhverfisverndar. Bættur hagur eykur til að mynda þann tíma og ráð sem menn hafa til ferðalaga og útivistar, hvort sem það er veiði, skógrækt, gönguferðir, fjallaklifur eða fuglaskoðun. Flestir vilja njóta slíkra frístunda í óspilltu umhverfi og við þurfum á einstaklingsframtakinu að halda til að anna þeirri eftirspurn.
Greinin birtist í Blaðinu 24. september 2006.