Sigríður Á. Andersen

View Original

Ódýrari leiðir í boði í loftslagsmálum

Íslensk stjórnvöld vita ekki hvað þau fá fyrir ýmis veruleg útgjöld sín til loftslagsmála. Stjórnvöld geta þar með ekki heldur metið hvort þau séu að fara hagkvæmustu og árangursríkustu leiðirnar.

Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í haust og hafði svo sem komið fram í umræðum mínum við umhverfisráðherra í þinginu fyrr á árinu. Ég fjallaði sérstaklega um þetta svar hér á síðu minni.

Ég ákvað því að gera tilraun til þess sjálf, með góðri aðstoð, að meta tvær leiðir sem stjórnvöld hafa farið undanfarinn áratug og bera saman við tvær aðrar leiðir sem standa til boða á almennum markaði.

Skattaívilnun rafbíla

Reikna má með að bensínbíll sem eyðir 8 L/100km og ekið er 15 þúsund km á ári losi samtals um 42 tonn af CO₂ á meðan hann er á götunni (15 ár). Ríkið hefur einsett sér að draga úr losun frá bílaumferð og veitir því rafbílum ýmsar skattaívilnanir.

*Engin vörugjöld eru greidd af rafbíl en þau geta numið allt að 65% af innkaupsverði fyrir bensín- og Dieselbíla.

*Veittur er verulegur afsláttur af virðisaukaskatti rafbíla eða allt að 1,4 milljónum króna. Samtals nam endurgreiðsla virðisaukaskatts af rafbílum um 5 milljörðum króna árið 2020 samkvæmt fyrrnefndu svari fjármálaráðherra.

*Bifreiðagjöld eru sömuleiðis miklu lægri fyrir rafbíl.

*Bensínbíllinn greiðir að auki um 100 þúsund krónur á ári í bensíngjöld eða um 1,5 milljónir á líftíma bílsins.

Ef þessar skattaívilnanir eru samanlagt 2 milljónir króna fyrir hvern rafbíl (sem er mjög hóflegt mat) er ríkið að láta um 48 þúsund krónur af hendi fyrir jöfnun á hverju tonni CO₂ sem bensínbíll hefði gefið frá sér.

(Hér er ekki tekið tillit til þess að framleiðsla rafbíls hefur í för með sér talsvert meiri orkunotkun og útblástur en framleiðsla á bensínbíl. Þessi losun við framleiðslu getur samsvarað nokkurra ára akstri á bensínbíl. Í nýrri skýrslu frá VOLVO kemur til að mynda fram að framleiðsla fyrirtækisins á XC40 rafbíl losi 70% meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðsla á sömu gerð af bensínbíl. Misjafnt er svo eftir raforkukerfum (kol, gas, olía, vatnsafl, kjarnorka, vindur, sól) hvort og hvenær rafbíllinn vinnur þennan mun upp.)

Skattaívilnun lífeldsneytis

Önnur tilraun ríkisins til að minnka CO₂ frá ökutækjum er skattaívilnun fyrir íblöndun lífeldsneytis í hefðbundið eldsneyti. Lífeldsneytið er dýrara í innkaupum og hefur lægra orkuinnihald en hefðbundið eldsneyti. Notkun þess leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings eldsneytis. Ég hef margsinnis fjallað um þetta í pistlum hér á síðu minni. Samtals veitti ríkið 2,4 milljarða króna í þennan skattaafslátt á síðasta ári.

Samkvæmt reglugerð um gæði eldsneytis á þessi íblöndun að draga úr losun frá vegasamgöngum og vinnuvélum um 6%. Heildarlosun frá vegasamgöngum og vinnuvélum er um 1 milljón tonna á ári svo samdrátturinn gæti verið nærri 60 þúsund tonnum. Kostnaðurinn við hvert tonn kolefnisjöfnunar eftir þessari leið er kr. 40.000.

Skógrækt

Kolviður býður kolefnisjöfnun með skógrækt. Skógur í vexti bindur kolefni úr andrúmsloftinu með ljóstillífun. Skógrækt hefur ýmsa aðra kosti en kolefnisbindingu eins og skjól en dregur um leið úr útsýni. Kolefnisjöfnun á einu tonni CO₂ hjá Kolviði kostar kr. 2.200.

Endurheimt votlendis

Votlendissjóður býður kolefnisjöfnun með endurheimt votlendis. Kolefnisjöfnun á einu tonni CO₂ kostar kr. 2.000. Við framræslu votlendis kemst súrefni að þeim lífmassa sem safnast hefur í votlendið um aldir. Þegar súrefnið kemst að kolefninu í lífmassanum myndast CO₂. Nái vatnsstaða í landinu aftur fyrri hæð lokast fyrir þetta ferli og landið tekur að binda kolefni í stað þess að losa. Endurheimt votlendis er einnig talin hafa aðrar jákvæðar afleiðingar á borð við aukið fuglalíf og jákvæð áhrif á vatnsbúskap í ám og vötnum og þar með lífsskilyrði fiska. Ég hef frá árinu 2015 fjallað nokkuð um endurheimt votlendis sem áhugaverða og hagkvæma leið í loftslagsmálum þar sem landslag og landnýting leyfir. Og ekki síst tækifærin sem geta falist í endurheimt votlendis fyrir jarðeigendur, bæði frá sjónarhorni umhverfis og efnahags.

Gætu lækkað kostnað um 95% 

Af þessum einföldu útreikningum verður ekki annað séð en að stjórnvöld hafi valið mjög dýrar leiðir til fást við loftslagsmálin. Í grófum dráttum eru helstu aðgerðir ríkisins í loftslagsmálum tvítugfalt dýrari en skógrækt og endurheimt votlendis. Ríkið gæti með öðrum orðum náð sama árangri fyrir 5% af núverandi kostnaði. Í stað þess að eyða 7,4 milljörðum á ári í niðurgreiðslur á innfluttum rafbílum og lífeldsneyti gæti ríkið náð sama árangri með 370 milljónum króna í skógrækt og endurheimt votlendis hér á landi.

Hvers vegna eru skattgreiðendur látnir greiða tvítugfalt meira fyrir loftslagsaðgerðir en þörf krefur?