Ógnandi ummæli
Fréttir bárust af því í vikunni að ímam (klerkur múslima) nokkur í Danmörku hafi verið ákærður fyrir að hvetja í prédikun sinni til morða á gyðingum.Líkt og hér á landi er það refsivert í Danmörku að hvetja til refsiverðs verknaðar. Málflutningur af þessu tagi á auðvitað ekkert skylt við tjáningarfrelsi það sem við viljum standa vörð um og er nokkuð til umfjöllunar þessi dægrin.Við hér á Íslandi höfum sem betur fer ekki þurft að bregðast við andstyggilegri ræðu eins og þessari. Ég vil leyfa mér að vona að það sé vegna þess að Íslendingar eru almennt vel upp aldir í góðum siðum og náungakærleik, vel upplýstir og umburðarlyndir þótt við séum mögulega þrætugjörn og stundum stóryrt á opinberum vettvangi. Hatur á einstökum hópum manna, sem endurspeglast í máli áhrifavalds eins og því sem nú verður ákært fyrir í Danmörku, þekkjum við ekki hér á landi og skulum aldrei kynnast.Ég funda reglulega með dóms- og innanríkisráðherrum sem fara með löggæslu- og öryggismál á landamærum í Evrópusambandinu vegna Schengen samstarfsins. Austurríki tók nýverið við formennsku í ráðherraráði ESB. Á óformlegum fundi sem Austurríki boðaði til um daginn var fjallað sérstaklega um vaxandi gyðingahatur í Evrópu. Sérstakir gestir fundarins voru m.a. fulltrúar samtaka gyðinga í Evrópu sem lýstu ótrúlegu öryggisleysi gyðingafjölskyldna í stórborgum Evrópu. Þetta kemur okkur á óvart sem höfum tilhneigingu til að líta á evrópskar borgir sem griðastað fólks af ólíkum uppruna.Það var vægast sagt fróðlegt að heyra lýsingar kollega minna á aðgerðum sem ríkin hafa þurft að grípa til til að stemma stigu við þessari óværu til viðbótar við almenna öryggisgæslu á götum úti. Það er til marks um áhyggjur manna af þessari þróun að gyðingahatur hafi yfirleitt verið til sérstakrar umræðu á þessum nýlega ráðherrafundi.Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. júlí 2018 - http://www.visir.is/g/2018180729232