Orkuskipti í orði
Mér fróðari menn um sögu Alþingis sögðu mér að orðið „orkuskipti“ hafi vart heyrst á þingi fyrir 2010. Leit í þingræðum fyrir þann tíma bendir til að þetta sé rétt metið.
Síðasta áratuginn hafa orkuskipti hins vegar verið á hvers manns vörum í þinginu. Að ógleymdum öllum skýrslunum og aðgerðaáætlununum. Þess vegna kom mér á óvart að sjá þróunina í orkunotkun okkar undanfarinn áratug. Hana má sjá á grafinu hér að ofan sem fengið er af vef Orkustofnunar. Grafið sýnir hlut endurnýjanlegrar frumorku í orkubúskap Íslands 1940 - 2019. (Það eru nýlega komnar tölur frá OS fyrir árið 2020 en vegna mikilla áhrifa af Covid hafa þær litla þýðingu um þróun til lengri tíma.)
Orðaskiptin duga skammt
Eins og sést glöggt á grafinu hér að ofan þá hafa orkuskiptin oft gengið betur en þennan áratug eftir að við stjórnmálamenn fórum að tala þindarlaust um þau. Hlutfallið árið 2019 (83,8%) var heldur lægra en árið 2009 (85,4%).
Þessi þróun síðasta áratuginn á sér væntanlega þær skýringar helstar að hingað hafa streymt ferðamenn sem þurfa að komast hingað og heim og einnig á milli staða hér innanlands. Um leið hefur minna verið virkjað til viðbótar af endurnýjanlegri orku landsins en stundum áður.
Þá er rétt að hafa í huga að í raun höfum við Íslendingar fyrir löngu gengið í gegnum orkuskipti. Það litla brot sem eftir er bíður þess nú aðeins að ný tækni í samgöngum (bílar, skip, flugvélar) og vinnuvélum verði svo hagkvæm að við getum nýtt okkar endurnýjanlegu orku á hana. Allt þetta tal um orkuskipti á Íslandi er því meira og minna um orðinn hlut.
Vandi heimsins
Þessi hægfara þróun hér í landi hinnar endurnýjanlegu orku undanfarinn áratug undirstrikar um leið vandann sem þjóðir heims standa frammi fyrir í orkumálum. Í æði mörgum tilfellum er hægara sagt en gert að skipta um orku. Þess vegna gengur heimurinn enn að mestu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti. Aðrar hagkvæmar og tæknilega aðgengilegar lausnir þurfa að vera til staðar. Bæði til orkuframleiðslunnar sjálfrar og nýtingar hennar.
Allt þetta tal um orkuskipti. Orðin ein, jafnvel þótt sögð séu á þingi, í kosningabaráttu eða loftslagsráðstefnum hingað og þangað um heiminn breyta litlu.