Sigríður Á. Andersen

View Original

Prófkjörið er einstakt tækifæri

Lýðræðið er langt frá því að vera fullkomið. Það er þó besta stjórnarformið sem við þekkjum. Undanfarnar vikur hef ég tekið þátt í prófkjörsbaráttu stærstu stjórnmálahreyfingar landsins. Það hefur verið afar ánægjulegur tími. Félagsmenn í Sjálfstæðisflokknum hér í Reykjavík eru um 20 þúsund. Ég hef fengið færi á að ræða við mjög marga þeirra, bæði þá sem komið hafa á kosningaskrifstofu mína við Austurvöll, þá sem ég hef rætt við í síma og hitt á ótal fundum og mannamótum. Það er ómetanlegt fyrir þá sem vilja taka þátt í stjórnmálum að fá tækifæri til að heyra sjónarmið þeirra sem valdið hafa, kjósenda. Góð aðferðPrófkjör er auðvitað ekki eina leiðin sem stjórnmálaflokkarnir hafa til þess að velja fólk á framboðslista sína. Við sjálfstæðismenn þekkjum einnig þá leið sem stundum hefur verið farin, að fela fámennri kjörnefnd það verkefni að stilla upp lista. Sjálf hef ég reynslu af störfum kjörnefndar og tók þátt í því að stilla upp lista fyrir borgarstjórnarkosninganna í vor. Var það ærið verkefni þótt prófkjör hefði skorið úr um efstu sæti. Að fela fámennum hópi það hlutverk að búa til framboðslista án prófkjörs getur hins vegar orkað tvímælis. Það er mikilvægt að nýir frambjóðendur fái tækifæri til þess að gefa kost á sér og fái um leið að láta á sig reyna í kosningabaráttu. Ég hef sagt það við menn sem hafa spurt mig hvort ekki sé erfitt og lýjandi að heyja svo harða baráttu, að prófkjörsbarátta sé bara undirbúningur fyrir þá baráttu sem mestu máli skiptir; kosningarnar í vor. Treysti menn sér ekki í þann undirbúning verður á litlu að byggja þegar á hólminn er komið.  Þess vegna tel ég prófkjör ákjósanlegustu leiðina til þess að velja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins.Málefnalegt innleggPrófkjörið í dag hefur mun meiri áhrif en bara á uppröðun listans í vor. Allir frambjóðendur hafa nýtt síðustu vikur, ef ekki mánuði, til þess að eiga orðastað við þúsundir kjósenda sem hafa skoðanir á hlutverki stjórnmálamanna. Eðli máls samkvæmt er margt sem brennur á mönnum. Sjálf hef ég fengið tækifæri til þess að kynnast sjónarmiðum fólks sem segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við hið opinbera, ríki eða borg. Má sem dæmi nefna einföld mál á borð við afgreiðslu erinda hjá opinberum stofnunum, flóknari mál á borð við tekjutengingu lífeyrisgreiðslna og afar alvarleg mál eins og úrræði fyrir langveik börn og foreldra þeirra. Ég get svo nefnt það hér til gamans að aðeins einn viðmælandi minn hefur haft áhuga á að ræða kvótakerfið sérstaklega. Það er trúlega til marks um breytta tíma.Öll þessi samtöl hafa verið áhugaverð og vakið mig til umhugsunar um einfaldar og hagkvæmar lausnir. Ég hef sannfærst enn frekar en áður um að þær megi finna með sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi. Ég hef einnig áttað mig á því með þessum samtölum að í kosningunum í vor verður tekist á um einkum þrennt; stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun skatta og þar með bættan hag heimilanna og aðstoð velferðakerfisins við þá sem á þurfa að halda. Það er afar mikilvægt að við frambjóðendurnir höldum til haga öllum þeim góðu ábendingum sem við höfum fengið undanfarnar vikur.Tökum þáttÞátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokkisins er einstakt tækifæri til þess hafa áhrif á framboðslista stærstu stjórnmálahreyfingar landsins. Ég hvet reykvíska sjálfstæðismenn til þess að taka þátt í því að stilla upp sigurstranglegum lista fyrir kosningarnar í vor.Greinin birtist í Blaðinu 28. október 2006.