Sigríður Á. Andersen

View Original

Ríkið gefur og ríkið tekur

„Það er ekki til neitt sem heitir opinbert fé, aðeins fé skattgreiðenda,“ sagði frúin sem stóð í stafni í Bretlandi í rúman áratug. Allt of oft gleymist þetta grundvallaratriði í umræðu um opinber fjármál. Ríkið getur ekki aukið útgjöld sín nema með því að taka fé af einstaklingum. Jafnvel þótt einstaklingarnir séu stundum kallaðir „tekjustofnar“ til að breiða yfir þessa staðreynd verður henni ekki haggað. Þess vegna skýtur það skökku við að þegar frumvarp til fjárlaga, sem kynnt var í vikunni, gerir ráð fyrir skattalækkunum séu þeir til sem telja það vera sérstaka atlögu að heimilunum í landinu.Í stað þess að fagna því að tekjuskattsþrep nr. 2, sem hefur lagst á þorra almennings, verði lagt niður er því haldið fram af stjórnarandstöðunni að hinir lægst launuðu, sem hafa greitt lægstu skattana, beri lítið úr býtum við þessa breytingu og að ójöfnuður aukist. Í stað þess að fagna því að tollar verði felldir niður á yfir 1.600 vörutegundum, og Ísland þar með orðið nánast tollalaust land, telja þeir það fjárlagafrumvarpinu til vansa að ekki séu felldir niður þeir tollar sem áfram er fyrirhugað að verði á tilteknum matvælum. Ég tek heils hugar undir með þeim sem vilja sjá gengið enn lengra í því að losa þjóðina undan hinu heimatilbúna helsi sem tollar eru. Það væri hins vegar fráleitt að njóta ekki augnabliksins þegar tekið er svo stórt skref í rétta átt.Langflestir launþegar hafa tekjur á bilinu 310 til 840 þúsund krónur. Á þennan stóra hóp kaus vinstristjórnin að hækka skatta umfram þá sem lægri tekjur höfðu, í nafni jöfnuðar. Nú er hins vegar svo komið að þessi jöfnunartilburðir vinstrimanna eru orðnir sérstakt vandamál í íslensku atvinnulífi. Kjaradeilurnar í sumar lutu einmitt að kröfum um að draga úr jöfnuði með því að meta menntun til launa, krafa sem á ekki endilega rétt á sér en lýsir þó afstöðu fjölmennra stéttarfélaga til hugsjónarinnar um jöfnuð. Hin fjölmenna millitekjustétt er að sligast undan þeirri fjárhagslegu ábyrgð sem hún ber á útgjöldum ríkisins.Aukin jaðaráhrif eru svo annað vandamál sem þrepaskipting og skattahækkanir vinstristjórnarinnar höfðu í för með sér. Með yfir 46% tekjuskatti og miklum tekjutengingum alls kyns bóta er mönnum rækilega refsað fyrir að auka tekjur sínar, reyna að draga björg í bú. Ekki síst ef það er gert af miklum krafti yfir stutt tímabil í tengslum við íbúðakaup og barneignir.Þótt tekjuskattslækkunin sem nú er boðuð sé ekki endilega mikil í krónum talið fyrir alla tekjuhópa felur hún að minnsta kosti í sér afturhvarf frá markvissum fjárhagsárásum ríkisins á millitekjufólk.Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13. september 2015. Gögn í mynd sem sýnir tekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) á árunum 1980 til 2014 af hverjum landsmanni (krónur á verðlagi ársins 2014) eru fengin af vef Hagstofu íslands.