Sumarprófkjör í Reykjavík
Fram undan er prófkjör okkar Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Enginn flokkur hefur jafn oft og með jafnglæsilegum árangri leitað til flokksmanna sinna við röðun á framboðslista. Ég óska nú eftir stuðningi flokksmanna í 2. sætið í prófkjörinu. Ég hef á þessu kjörtímabili verið 1. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.
Það er ekki bara sem þingmaður og ráðherra í tveimur síðustu ríkisstjórnum sem ég hef haft að leiðarljósi hina sígildu stefnu Sjálfstæðisflokksins um frelsi manna til orðs og æðis. Mér hefur, frá því ég man eftir mér, fundist brýnt að standa vörð um frelsið. Ekki bara þegar vel gengur og allir eru kátir og hressir heldur einmitt þegar sótt er að frelsinu úr öllum áttum með misveigamiklum rökum. Frelsið tapast sjaldan í einni svipan en hægt og bítandi saxast á það ef stjórnlyndi, ótti eða andvaraleysi grefur um sig meðal frjálslyndra manna.
Ég hef lagt áherslu á að hrinda málum í framkvæmd fremur en að stofna starfshópa og fresta ekki brýnum málum jafnvel þótt skiptar skoðanir kunni að vera um þau. Með lýðræðislegt umboð kjósenda í farteskinu vil ég ganga hreint til verks en er ávallt boðin og búin fyrir málefnaleg skoðanaskipti. Ég hef haldið uppi málefnalegri gagnrýni frá hægri á ýmis mál ríkisstjórnarinnar, bæði innan og utan stjórnar. Um leið hef ég liðkað fyrir samstarfi þeirra ólíku flokka sem ríkisstjórnina mynda. Á þessu kjörtímabili og því stutta sem á undan fór hafa störf mín tekið mið af þessum áherslum.
• Sem dómsmálaráðherra réðst ég strax á fyrstu mánuðum í nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum um útlendinga. Þessar breytingar stöðvuðu stjórnlausa fjölgun tilhæfulausra umsókna um alþjóðlega vernd frá borgurum öruggra ríkja og flýttu fyrir afgreiðslu þessara mála. Umsóknum frá Albaníu og Makedóníu fækkaði til að mynda um 90% milli áranna 2016 og 2019.
• Ég tók ákvörðun um að gera þinglýsingar rafrænar og hratt því verkefni úr vör með nauðsynlegri lagabreytingu.
• Ég stöðvaði áratuga sjálfkrafa veitingu uppreistar æru og er eini ráðherrann sem hefur neitað að veita uppreist æru.
• Frumvarp mitt um afnám lagaákvæða um uppreist æru var samþykkt á Alþingi auk viðeigandi breytinga á fjölmörgum lagabálkum.
• Ég setti endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar í forgang og inn á fjármálaáætlun.
• Ég lagði áherslu á að standa vörð um þá styrkingu löggæslunnar sem hófst árið 2013 er Sjálfstæðisflokkurinn tók við dómsmálaráðuneytinu.
• Ég kynnti til sögunnar markmið um gæði löggæslu í löggæsluáætlun.
• Ég lét hefja vinnu við frumvarp um skipta búsetu barna og kynnti það fullbúið. Það hefur nú verið samþykkt aðeins breytt.
• Frumvarp mitt um afnám lagaákvæða sem bönnuðu þjónustu á helgidögum var samþykkt á Alþingi.
• Persónuverndarlög með áherslu á stóraukin réttindi einstaklinga var samþykkt á Alþingi.
• Ég lagði fram lagafrumvarp um aukna vernd tjáningarfrelsisins.
• Ég skipaði 15 dómara við nýjan dómstól í ríkri samvinnu við Alþingi og að undangenginni staðfestingu Alþingis. Hvorki fyrr né síðar hefur jafnmikilvæg stofnun verið skipuð konum og körlum til jafns frá upphafi.
• Ég kynnti aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslunni sem hefur verið og verður áfram grundvöllur breytts verklags hjá lögreglu og dómstólum.
Sem þingmaður hef ég og mun áfram tala fyrir raunhæfum leiðum í samgöngumálum og umhverfismálum, fjölbreyttara rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu og lægri álögum á fólk og fyrirtæki. Nú þegar við losnum úr viðjum veirunnar hafa tækifærin til að tala máli heimilanna og atvinnulífsins sjaldan verið betri. Sjálfstæðisflokkurinn á brýnt erindi við kjósendur í haust. Hann þarf að leiða næstu ríkisstjórn á forsendum hinnar sígildu stefnu sinnar um frelsi gegn helsi. Ég vil leggja mitt af mörkum til að svo verði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2021.