Sigríður Á. Andersen

View Original

Þegar löggjöf dugar ekki

Alþjóðadegi fatlaðs fólks var fagnað í liðinni viku. Af því tilefni bauð Sjálfsbjörg, í samvinnu við bandaríska sendiráðið, upp á sýningu á heimildarmyndinni Lives Worth Living. Myndin segir frá áratuga réttindabaráttu fatlaðs fólks í Bandaríkjunum sem leiddi til setningar laga um málefni fatlaðs fólks. Lögin eiga 25 ára afmæli um þessar mundir. Í myndinni er því ágætlega lýst að það var vissulega þörf á ýmsum lagabreytingum til þess að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks. Til dæmis var lögfest að allar byggingar og mannvirki sem fjármögnuð væru með fé almennings, fatlaðs fólks þar á meðal, þyrfti að vera aðgengilegt öllum mönnum. Að sjálfsögðu. En hvernig ætli þessu sé háttað í dag hér á landi? Hreyfihamlaðir eiga að mér skilst enn erfitt með að nálgast þjónustu sumra stofnana ríkis og sveitarfélaga. Það er sjálfsagt að taka tillit til þess að erfitt getur verið að breyta gömlu húsnæði svo uppfylla megi kröfu um aðgengi fyrir alla. Svigrúm hefur enda verið veitt til þess arna en fráleitt er þó að fallast á að slíkt taki mörg ár, jafnvel áratugi. Nýleg eru svo dæmin um verulega heft aðgengi fatlaðra að almenningssamgöngum, en með þeim tel ég ferðaþjónustu fatlaðra. Ef hið opinbera ætlar að bjóða upp á samgöngur hljóta þarfir hreyfihamlaðra að koma til sérstakrar skoðunar, skyldi maður ætla. Og göturnar í miðborginni sem verið er að loka fyrir bílum. Skyldu menn hafa leitt hugann að hagsmunum hreyfihamlaðra? Þeir eins og aðrir kunna að vilja búa og starfa í miðborginni.Hvað um aðgengi að byggingum einkaaðila, íbúðarhúsnæði og þjónustubyggingum? Önnur sjónarmið geta átt við um það. Nýlega tóku gildi reglur um svokallaða algilda hönnun, sem þýðir að öll ný mannvirki (ekki bara hús) þurfa að vera aðgengileg öllum. Eðli máls samkvæmt takmarka þessar reglur nokkuð svigrúm til þess að byggja ódýrt húsnæði eða redda í snarhasti lágmárksaðbúnaði við vinsælan áningarstað. Allt krefst nú hönnunar með það að markmiði að allir geti notið. Ég tek heilshugar undir markmið reglnanna og auðvitað er það þannig að það er ekki bara fámennur hópur fólks í hjólastól sem „nýtur góðs af“ markmiðinu. Öll verðum við vonandi gömul og mörg okkar missa þá því miður einhverja hreyfigetu. Ung erum við jafnvel með skerta hreyfigetu við ákveðnar aðstæður sem við kjósum þó að búa við, á hælaháum skóm um hávetur. Upphitaðar gangstéttir eru jú einmitt hluti af algildri hönnun. Ég er þó ekki viss um að strangar reglur skili mestum árangri í þessum efnum. heldur miklu frekar fræðsla og „lobbýismi“ sem getur hjálpað réttindabaráttu fatlaðs fólks og um leið okkur öllum.

Borgarstjóri óskar eftir undanþágu frá reglum um aðgengi fatlaðra í nýrri verslun sinni, – og fær hana líklega. Kannski eru reglur ekki málið.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 6. desember 2015.[embed]https://www.youtube.com/watch?v=5-GgxIgNje0[/embed]