Sigríður Á. Andersen

View Original

Þéttingarstefnan dreifir byggðinni

Meirihluti vinstri manna í borgarstjórn Reykjavíkur sendi 40 síðna litprentaðan bækling í hvert hús í síðustu viku. Nokkur tonn af pappír fyrir nokkrar milljónir króna á kostnað allra borgarbúa. Með bæklingnum er ætlunin að gefa til kynna að borgin hafi staðið sig vel í skipulags- og lóðamálum á undanförnum árum.En tölurnar frá hagstofunni um fólksfjölgun í sveitarfélögunum segja aðra sögu. Borgin hefur því miður einblínt á þéttingu byggðar með þeim afleiðingum að skortur hefur verið á lóðum í höfuðborginni. Þar við bætist að byggingarkostnaður á þéttingarlóðum borgarinnar er allt að 50% hærri en á nýbyggingarsvæðum, samkvæmt upplýsingum sem komu fram á húsnæðisþingi nýverið. Auðvitað leiðir úthlutun á fáum og dýrum lóðum til skorts og verðhækkana sem gera ungu fólki í leit að sinni fyrstu íbúð sérstaklega erfitt fyrir.Þetta hefur leitt til þess að íbúum í flestum sveitarfélögum í kringum Reykjavík hefur fjölgað meira en í borginni sjálfri frá árinu 2011. Fjölgunin í nokkrum sveitarfélögum frá 2011 til 2017 er dregin upp á myndinni hér til hliðar til samanburðar við aðeins 3,7% fjölgun í Reykjavík. Ég vona að mér fyrirgefist að vera ekki jafn flott á því í hönnun, litprentun og póstburði á mínu myndefni og meirihlutinn í borgarstjórninni.Þéttingarstefnan sem átti að spara mönnum ferðalög hefur ýtt fólki, sem jafnvel starfar í borginni, út úr henni. Á meðan stöðnun er í Reykjavík er uppgangur og fólksfjölgun í sveitarfélögunum í kring, austur fyrir fjall, suður með sjó og upp á Skaga.Á húsnæðisþinginu kom einnig fram að fjölgun á nágrannasveitarfélögunum væri ekki endilega til komin vegna aðstæðna í sveitarfélögunum sjálfum, svo sem vegna fleiri atvinnutækifæra, heldur væri hún einnig vegna ruðningsáhrifa frá höfuðborgarsvæðinu.Þétting getur auðvitað verið ágæt í ákveðnum tilvikum þar sem aðstæður eru hagstæðar en það er vont að gera hana að slíku trúaratriði að hún snúist upp í andhverfu sína og leiði til þess að fólk dreifist víðar og lengra frá borginni en það hefði ella hug á.