Sigríður Á. Andersen

View Original

Tjáningarfrelsi sumra

RÚV ræddi við mig í gær um þá geðshræringu sem gripið hefur um sig meðal nokkurra stjórnmálamanna í Evrópu vegna Elon Musk sem hefur leyft sér að segja upphátt það sem hann hugsar um menn og málefni í ýmsum löndum. Helst er honum fundið það til foráttu að vera ríkur og eigandi að samfélagsmiðlinum X. Slíkur maður eigi ekkert með að hafa skoðun á svokölluðum innanríkismálum annarra landa að mati t.d. forsætisráðherra Noregs.

Auðvitað hefur Musk fullt málfrelsi eins og annað fólk. Hann á meira að segja rétt á að hafa fráleitar skoðanir og jafnvel rangt fyrir sér ef svo ber undir.

Tvennt nefndi ég í viðtali við fréttamann RÚV en sem fékk þó ekki að fljóta með í ljósvakanum.

Annars vegar þann tvískinnung sem felst í því að þessir stjórnmálamenn sem nú kvarta yfir áhuga Musk á samfélagsmálum hafa undanfarinn áratug eða svo nýtt sér Elon Musk og viðskiptaveldi hans í eigin þágu í pólitískri umræðu um umhverfismál. Þannig var Elon Musk aufúsugestur þeirra þegar þeir vildu predika orkuskipti yfir kjósendum og knýja á um breyttan bílalífstíl. Í framhaldinu hófu stjórnmálamennirnir að ryðja allri samkeppni við rafbíla úr vegi og koma á niðurgreiðslu til rafbílaframleiðslu Musks sem ekki sér fyrir endann á.  Varlega áætlað hafa íslenskir skattgreiðendur niðurgreitt innflutning Tesla bifreiða um 15 milljarða.

Nú þegar Musk hefur réttilega bent á að olía og gas muni um ókomna framtíð vera helsti orkugjafi heimsins og hvatt t.d. Noreg til að halda áfram olíuleit sitja einhverjir uppi með rjómaköku í andlitinu. Og kakan sú súrnar hratt þegar við bætist að Musk leyfir sér að tjá sig um það sem honum og jafnvel þorri manna telur miður hafa farið við stjórn ýmissa landa.

Hins vegar nefndi ég í samtali við fréttamann RÚV að eftir að hafa keypt Twitter (nú X) gerði Musk opinber gögn sem sýndu skipulagða ritskoðun stjórnvalda á miðlinum. Mark Zuckerberg hefur lika upplýsti um það sama varðandi Facebook og lýsti því nú yfir í vikunni að sjálfskipaðir staðreyndasérfræðingar (fact checkers) sem hafa starfað á vegum Facebook myndu heyra sögunni til. Fyrirkomulagið hefði verið liður í óeðlilegri ritstýringu og skerðingu á tjáningarfrelsinu.

Ég rifjaði líka upp íslenska árvekniátakið „Stopp, hugsa, athuga“ á vegum fjölmiðlanefndar vinstri ríkisstjórnarinnar og landlæknis árið 2020. Þjóðaröryggisráði var teflt fram til að ljá verkefninu enn meiri þunga. Samstarf var haft við Facebook. Í ljósi upplýsinga frá Zuckerberg og Musk um markviss afskipti bandarískra stjórnvalda af samræðum fólks á þessum miðlum, væri forvitnilegt að vita nánar um samskipti íslenskra stjórnvalda við Facebook. Árvekniverkefninu var sérstaklega beint að „rangfærslum og misvísandi“ upplýsingum vegna veirunnar. Síðar hefur komið í ljós að mat stjórnvalda á því hvað var rangt eða misvísandi var hreinlega rangt.