Sigríður Á. Andersen

View Original

Útlendingar á Íslandi

Umræða um útlendinga hér á landi snýst gjarnan um hælisleitendur. Því er haldið fram að reglur málaflokksins séu ómannúðlegar og andsnúnar hælisleitendum. Þessa málflutnings er svo farið að gæta í umræðu um útlendinga almennt hér á landi (nema þegar kemur að jarðakaupum útlendinga). Einkum séu það börn í þessum hópum sem ekki njóti sannmælis. Þrátt fyrir ómakleg gífuryrði sem stundum eru látin falla í garð okkar stjórnmálamanna og embættismanna sem komum að þessum málum, og sem draga í raun úr alvarleika ásakananna, er full ástæða til þess að hlusta eftir málefnalegum ábendingum um það sem betur mætti fara í löggjöf í þeim málaflokki sem lýtur að dvöl og búsetu útlendinga hér á landi.

Landamæragáttir

Ágætur forseti vestan hafs, einn sá besti, nefndi í kveðjuræðu sinni á sínum tíma að ef það þyrfti að slá skjaldborg utan um draumaríkið þá þyrftu að vera gáttir á þeim vegg svo þeir geti komið í gegn sem í hjarta sínu vilja það. Þessi sýn á landamæri hefur ekki aðeins reynst Bandaríkjunum vel heldur einnig öðrum ríkjum sem hafa borið gæfu til þess að koma auga á mannauð víðar en heima fyrir og nýta hann. Þvert á það sem ætla mætti af umræðu hér á landi þá er Ísland í þeim hópi ríkja sem hafa lært þessa lexíu með reynslunni.Á Íslandi búa núna um 45 þúsund erlendir ríkisborgarar. Undanfarin ár hefur útlendingum hér fjölgað mun meira en innfæddum. Sumir þessara útlendinga öðlast með tímanum íslenskan ríkisborgararétt. Undanfarin ár hefur svo háttað um hátt í 1.000 manns á ári. Að mati Hagstofunnar hverfur hins vegar annar hver maður aftur til síns heima, en aðrir koma í staðinn.Þessi þróun sýnir að Ísland stendur útlendingum opið. Og þannig á það að vera. Stærstur hluti útlendinga hér á landi kemur til þess að vinna um lengri eða skemmri tíma. Aðrir sækja hingað nám. Íslenskt efnahagslíf, og þar með velferð þeirra sem hér búa, byggist að nokkru leyti á erlendu vinnuafli. Þeirri stöðu verður ekki breytt og ekki ástæða til. Verkefni okkar allra er að renna stöðugt styrkari stoðum undir efnahagslífið, stækka kökuna sívinsælu og leggja þannig okkar af mörkum til þess að allur heimurinn haldi áfram að batna.

Alls konar útlendingar

Þeir sem koma hingað til að vinna gera það flestir á grunni samnings sem Ísland hefur gert við önnur Evrópuríki um frjálst flæði vinnuafls. Mun færri koma frá svæðum utan EES. Ástæðurnar rek ég hér síðar.Undanfarin ár hefur þeim hins vegar fjölgað mjög sem óska eftir alþjóðlegri vernd af ýmsu tagi, í daglegu tali kallaðir hælisleitendur. Af 500 málum af þeim toga sem lokið var við að afgreiða nú á fyrri hluta ársins hefur 111 umsækjendum verið veitt dvalarleyfi á grundvelli verndar, viðbótarverndar (ef umsækjandi telst ekki flóttamaður skv. alþjóðasamningum) eða af mannúðarástæðum. Beinar synjanir voru 118 en 187 málum lauk með vísun málanna til meðferðar í því ESB-ríki þar sem umsókn var þegar til umfjöllunar, þar af var í 88 tilvikum um það að ræða að umsækjendur höfðu þegar fengið vernd í ESB-ríki. Jafnmörg dvalarleyfi hafa að undanförnu verið byggð á vernd og viðbótarvernd. Stór hluti er svo mannúðarleyfi. Þá er ótalinn fjöldi flóttamanna sem íslenska ríkið býður velkomna ár hvert í samvinnu við alþjóðastofnanir.Af þessu má sjá að landamæri hér eru fráleitt lokuð. Miðað við höfðatölu er Ísland meðal þeirra Evrópuríkja sem hafa tekið á móti flestum umsóknum um hæli. Kostnaður við afgreiðslu þessara umsókna hefur hækkað um tvo og hálfan milljarð á nokkrum árum í samræmi við fjölgun umsókna. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 2,7 milljörðum kr. í beinan kostnað við umsýslu hælisumsókna. Hér vegur þyngst húsnæðiskostnaður, beinn og í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu (1,4 milljarðar kr.). Annar kostnaður er framfærslueyrir, heilbrigðisþjónusta og lögfræðiþjónusta. Þessi kostnaður væri mun meiri í dag ef reglum um afgreiðslu umsókna, t.d. frá öruggum ríkjum, hefði ekki verið breytt í ráðherratíð minni. Hlutfall umsókna frá öruggum ríkjum minnkaði milli áranna 2017 og 2018 úr 60% í 24% og kostnaður einnig. En betur má ef duga skal.

Tilgangur dvalar

Sá er munurinn á flóttamönnum sem hingað koma og hælisleitendum að hinir fyrrnefndu uppfylla skilyrði alþjóðasáttmála til að vera skilgreindir sem slíkir. Við tökum á móti þeim að yfirlögðu ráði og skipuleggjum vel komu þeirra, ekki síst með því að undirbúa okkur sjálf. Hælisleitendur koma hins vegar á eigin vegum og á margvíslegum forsendum. Stærsti hluti þeirra er ekki að flýja yfirvofandi ógn. Hvorki af mannavöldum né náttúru. Þeir eiga það hins vegar sameiginlegt að vera að leita tækifæra til þess að koma betur undir sig fótunum.Nú kann einhver að telja það ómannúðlegan orðhengilshátt að gera slíkan greinarmun á þessum hópum sem veldur því að sumir fá dvalarleyfi en aðrir ekki. Maður sem hefur þegar fengið dvalarleyfi í ESB-ríki af mannúðarástæðum fær nefnilega ekki dvalarleyfi á sama grunni í öðru ríki. Hann gæti hins vegar sótt um dvalarleyfi í öðru ríki á öðrum grunni, t.d. vegna náms eða vegna atvinnu.Nú er kallað eftir því að þessum hömlum sé aflétt og hælisleitendum þannig gert kleift að »versla með« dvalarleyfi sín. Nú þegar hægt hefur á straumi fólks inn til Evrópu hefur ferðum þeirra í þessum tilgangi innan Evrópu fjölgað. Á ensku hefur þetta verið kallað »asylum shopping« og hefur orðið tilefni til sérstakra aðgerða stjórnvalda í Evrópu og Kanada.Það er eðlilegt að hafa fullan skilning á bágum aðstæðum þeirra sem hafa fengið hæli í fátækari löndum Evrópu eins og Grikklandi og Ítalíu. Atvinnuleysi er þar mikið og félagsleg þjónusta mögulega minni en norðar í álfunni. Réttindi þeirra eru hins vegar að miklu leyti sambærileg við réttindi innfæddra. Í samanburði við þá sem hafa dvalið árum saman í flóttamannabúðum, og dvelja þar enn, hljóta tækifærin að vera meiri í Grikklandi. Og það er sá samanburður sem stjórnvöld standa frammi fyrir því fólkið í flóttamannabúðunum knýr áfram dyra á Vesturlöndum.

Nauðsynlegar breytingar

Mikilvægur munur er þó á grískum ríkisborgurum og þeim sem hafa fengið hæli í Grikklandi. Grikkirnir geta sótt vinnu á öllu EES-svæðinu en réttindi þess sem fengið hefur hæli að því leyti eru eftir sem áður eins og réttindi borgara utan EES. Hann þarf að sækja um atvinnuleyfi og dvalarleyfi á þeim grunni. Það hefur verið hægara sagt en gert fyrir borgara utan EES að fá atvinnuleyfi á Íslandi. Alls ekki útilokað en leiðin að því marki hefur verið og er stórgrýtt. Það hefur verið undir aðilum vinnumarkaðarins komið hvort þessir þriðjaríkisborgarar eiga möguleika á að þiggja hér vinnu. Mesta möguleika eiga sérfræðingar og þeir sem teljast hafa einhvers konar sérstök tengsl við landið. Umsækjendur leita því allra leiða til að uppfylla þessi skilyrði. Þá er það metið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma hvort skortur sé á tilteknu vinnuafli. Þessu snúna ferli er auðvelt að breyta hafi menn raunverulegan áhuga á því að opna hér vinnumarkaðinn fyrir fleirum en borgurum EES. Hingað til hefur ekki verið mikill áhugi á slíku hjá aðilum vinnumarkaðarins. Ég hef hins vegar lengi talið löngu tímabært, ekki síst í ljósi tilhæfulausra umsókna um hæli hér á landi, að áhugasömum um dvöl hér sé beint í skynsamlegri farveg. Félagsmálaráðherra ætti að leggja drög að breyttum reglum í þessum efnum.

Áframhaldandi þróun

Í byrjun árs kynnti ég frumvarp um nauðsynlegar breytingar á lögum um útlendinga. Í því er m.a. tekið á þeirri þróun sem áður er lýst um umsóknir frá þeim sem þegar eru komnir með vernd í ESB-ríki. Árið 2018 voru yfir 140 umsóknir frá þeim sem þegar höfðu stöðu í öðru ESB-ríki. Meðalafgreiðslutími þessara umsókna var sex til níu mánuðir og kostnaður á bilinu 340-500 milljónir króna. Auka þarf skilvirkni við afgreiðslu og lyktir þeirra mála. Frumvarpinu er ætlað að gera það. Um leið verður gagnsæi aukið og stöðugleiki við framkvæmd laganna og þar með betri meðferð opinbers fjár. Mikilvægt er að mælt verði fyrir frumvarpinu á Alþingi og það gert að lögum á haustdögum.Enn frekari breytingar þurfa að verða á stjórnsýslu útlendingamála. Það þarf að endurskoða samninga við lögreglu og mögulega fyrirkomulag talsmannaþjónustu. Þá væri það einnar messu virði að fara yfir lög um félagsþjónustu sveitarfélaga en sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki við móttöku flóttafólks og hælisleitenda. Fá sveitarfélög hafa þó borið hitann og þungann í þeim efnum.Landamæri okkar eiga að hafa hlið sem leyfa frjálsa för manna, og fleiri en EES-borgara, sem eru í lögmætri för. Á móti eigum við rétt á því að fólk komi ekki hingað á fölskum forsendum. Að það komi ekki sem hælisleitendur ef það þegar hefur fengið hæli í öðru ríki og ætlunin er bara að leita að vinnu hér á landi.Flóttamannastraumurinn til Evrópu er nú í rénun. Áfram og endalaust verður hins vegar til fólk sem ætlar sér að leita tækifæra í nýjum löndum. Við skulum taka því fagnandi en ekki ýta undir ólöglega för með sýndarmennsku.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2019.