Sigríður Á. Andersen

View Original

Valdbeiting vegna veirunnar og beiting hryðjuverkalaga gegn Íslandi

Í dag samþykkti breska þingið reglur forsætisráðherra um allsherjar ,,lockdown" í Bretlandi næstu vikur. Á þriðja tug þingmanna Íhaldsflokksins greiddi atkvæði gegn reglunum og gerðu grein fyrir atkvæðum sínum með afdráttarlausum hætti. Graham Brady er formaður hóps óbreyttra þingmannanna Íhaldsflokksins, hinni svokölluð „1922 nefnd“. Hann spurði grundvallarspurningarinnar: Hefur ríkisstjórnin heimild til þess að grípa til þessarar aðgerðar?

Jonathan Sumption lávarður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt Breta flutti í síðustu viku erindið „Government by decree: Covid-19 and the Constitution“ sem mætti þýða „Stjórnað með tilskipunum: Covid-19 og stjórnarskráin.“ Erindið er liður í árlegum Cambridge Freshfields fyrirlestrum.

Sumption segir að breska ríkið hafi aldrei áður notað aðra eins valdbeitingu gegn borgurum sínum og nú á því skeiði sem kennt er við Covid-19 heimsfaraldurinn.

Hann segist ekki draga það í efa að faraldurinn sé skæður en hann sé „ekki í neinum vafa um að þegar frá líði muni aðgerðirnar gegn honum verða minnisvarði um allsherjar geðshræringu og afglöp stjórnvalda.“

Hinn orðvari fyrrverandi dómari orðar þetta afdráttarlaust.  

Hinn rauði þráður í erindi Sumptions er að yfirvöld hafi farið út fyrir heimildir sínar. Þá sé ekki síður sé hætt við að þær heimildir sem leiddar hafi verið í lög verði þar til frambúðar og jafnvel nýttar síðar í allt öðrum tilgangi en þeim er ætlað.

Sem dæmi um það hvernig heimildir til valdbeitingar hafi orðið varanlegar nefnir hann heimildir úr seinni heimsstyrjöldinni sem stóðu í áratugi af því að mönnum þótti þægilegt að hafa þær til staðar þótt stríðinu væri löngu lokið.

Svo segir hann (bls. 12)

Á sama hátt hafa völdin sem ráðherrum og lögreglu voru færð með hryðjuverkalöggjöfinni 2000 og 2006 ekki aðeins verið nýtt til baráttunnar gegn hryðjuverkum heldur í margvíslegum öðrum tilgangi. Þar má nefna afskipti af friðsamlegum mótmælum, útvíkkun á tilefnislausum afskiptum (stop and search) lögreglu í leit að annars konar lögbrotum og frysting á eignum íslensks banka í þágu breskra innstæðueigenda.

Það er áhugavert fyrir okkur Íslendinga að beiting hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum og raunar íslenska ríkinu sé nefnt af fyrrum hæstaréttardómara Breta sem dæmi um hvernig valdheimildir hafi verið nýttar í allt annað en þeim var ætlað.

Það hlaut að koma að því að hægt væri að leiða Icesave og kórónaveiruna saman.