Vaxandi umræða um sóttvarnaaðgerðir
,,Allir ættu að sjálfsögðu að taka sóttvörnum af fullri alvöru, en tilskipanir yfirvalda ættu að taka mið af fjölda þeirra sem veikjast, ekki fjölda smitaðra."
Charlotte Reedtz, prófessor í sálfræði við Háskólann í Trömsö.
Mér hefur ekki þótt umfjöllun fjölmiðla hér á landi endurspegla vaxandi umræðu erlendis um meðalhóf sóttvarnaaðgerða og neikvæðar hliðaverkanir þeirra. Hér er þó ein slík frétt.
Ég minnist þess t.d. ekki að hafa séð umfjöllun um nýútkomna (janúar) rannsóknarskýrslu danska þingsins þar sem á það var bent að sú stefna danskra stjórnvalda að byggja á stjórnvaldsfyrirmælum (reglugerðum ráðherra t.d.) átti sér ekki stoð í lögum og þegar bæta átti úr því var gengið of langt í framsali valds til að takmarka stjórnarskrárvarin réttindi og að líta þyrfti á áhættuna af faraldrinum frá fleiri hliðum en bara læknisfræðilegum. Ég vakti athygli á þessari skýrslu við þriðju umræðu um breytingar á sóttvarnalögum 4. febrúar.
Í Bretlandi hefur frá upphafi verið umræða um meðalhóf og raunverulegan árangur af þeim hörðu aðgerðum sem þar hefur verið gripið til. Mögulega má segja að um helgina hafi orðið ákveðinn vendipunktur þegar samstöðufundur kvenna var leystur upp með valdi (með tilheyrandi návígi) að sögn í þágu sóttvarna. Deilt er um hvort aðgerðir lögreglu hafi verið í samræmi við meðalhóf, m.a. í ljósi annarra samstöðufunda sem hafa verið látnir átölulausir (t.d. þegar klappað var á Westminister brúnni fyrir heilbrigðisstarfsfólki) og þess hve margir eru bólusettir í landinu.
Allt eru þetta málefnalegar vangaveltur sem a.m.k. kjörnir fulltrúar ættu að láta sig varða.