Sigríður Á. Andersen

View Original

Vín og mat ríkisins

Ánægjulegt er að sjá nú lagt fram á Alþingi lagafrumvarp um verulega skattalækkun. Lagt er til að virðisaukaskattur á matvæli lækki úr 24,5% í 7%, að þjónusta á veitinghúsum beri framvegis 7% virðisaukaskatt í stað 24,5% eins og nú er og að vörugjöld á flest matvæli verði felld niður. Allt er þetta í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í haust um aðgerðir til þess að lækka matarverð á Íslandi. Tekjulækkun ríkissjóðs vegna alls þessa er áætluð um tíu og hálfur milljarður á ári. Reyndar gæti skattalækkunin orðið töluvert meiri, um þrjá og hálfan milljarð, ef virðisaukaskattur af áfengi fengi að fylgja með lækkun skattsins á önnur matvæli. Því miður vafðist sú skattalækkun fyrir skrifræðinu í fjármálaráðuneytinu. Þar á bæ vildu menn hækka áfengisgjaldið sem skattalækkuninni næmi, til að ríkissjóður yrði ekki af tekjum. Hefði þetta valdið töluverðri verðhækkun ódýrra vína en dýrari vín hefðu þó lækkað. Þess vegna er nú hætt við hækkun áfengisgjalds. Því miður er einnig hætt við virðisaukaskattslækkunina. Menn sitja því áfram uppi með áfengisgjald sem bjagar verðlagningu á áfengi.Áfengisgjald sem sérstakur tekjustofnÞað er gott að menn hafa nú sýnt vilja til þess að samræma reglur um matvæli og yfirvöld viðurkenna loks að áfengi er matur. En því miður telja menn rétt að nota áfengi sem sérstaka tekjulind fyrir ríkissjóð. Það er óheppilegt. Ríkissjóð á að fjármagna með almennum, gagnsæjum og einföldum hætti. Sérstakt áfengisgjald brenglar markaðinn með margvíslegum hætti. Það hallar til að mynda á veitingahús gagnvart víndrykkju í heimahúsum og hefur þannig einnig áhrif á sölu á tilreiddum mat. Þá er staða þeirra sem hafa tök á að versla í Fríhöfninni vegna tíðra ferðalaga ólíkt betri en þeirra sem þurfa að gera sér innkaup í ÁTVR að góðu. Áfengisgjaldið, eins og aðrir ofurskattar, eykur því ójafnræði meðal borgaranna.Eðli áfengisgjaldsÍ dag kostar ódýrasta rauðvínið í verslun ÁTVR 890 krónur. Af þeirri fjárhæð eru skattar (vörugjöld, áfengisgjald, skilagjald og virðisaukaskattur) um 600 krónur. Áfengisgjaldið er þess eðlis að vera föst krónutala á hvern sentílítra áfengis. Engu máli skiptir hvert innkaupsverð flöskunnar er. Gjaldið fer aðeins eftir áfengismagninu. Rauðvínsflaska sem kostar 100 krónur í innkaupum fær sama skatt og flaska sem kostar 10.000 krónur í innkaupum, ef þær innihalda sama áfengismagn.Augljóslega hefur þetta í för með sér meiri hlutfallslega skattbyrði þeirra sem kaupa ódýr vín og bjór heldur en þeirra sem velja dýr léttvín. Þetta fyrirkomulag aukaskattheimtu á áfengi er einnig, eins og alltaf þegar um sérreglur ræðir, flókið og fyrirhafnarmikið. Innflytjendur og ríkið þurfa að kosta nokkru til við útreikning og umsýslu á gjaldinu. Útreikninginn þarf svo jafnvel að endurtaka árlega þótt um sömu vöru sé að ræða enda getur áfengismagn léttra vína breyst með nýjum árgangi.Næstu skrefÞað er gott að fjármálaráðherra sá að sér varðandi hækkun áfengisgjalds. Hann ætti hins vegar að láta slag standa og láta virðisaukaskatt á áfengi fylgja skattlagningu annarra matvæla eins og upphaflega stóð til. Þeir 3,7 milljarðar króna, sem lækkun virðisaukaskatts á áfengi virðist kosta ríkissjóð, ættu að koma þaðan sem allar skattalækkanir eiga að koma; frá ríkissjóði sjálfum.Greinin birtist í Blaðinu, 6. desember 2006.