Vond umsókn og vinnubrögðin eftir því
Undanfarin ár hafa reglulega borist fréttir af því að Evrópusambandið og samninganefnd Íslands hafi opnað tiltekna »kafla« í samningaviðræðum um aðild Íslands að sambandinu. Nú hefur alls 21 kafli verið opnaður af þeim 33 sem semja þarf um. Með fréttunum fylgir svo að hinn tiltekni kafli hafi þó að mestu leyti verið um mál sem Íslendingar hafi þegar »innleitt« með EES-samningnum og nær enginn ágreiningur sé um. Hins vegar eigi enn eftir að opna kafla um meginhagsmuni Íslendinga, líkt og sjávarútveg.Eins og allir ættu að gera sér grein fyrir er fjarstæðukennt að nokkur nothæf niðurstaða fáist um þessa miklu hagsmuni okkar í sjávarútvegi, jafnvel þótt Steingrímur og Jóhanna fengju Svavar í samninganefndina. Himinn og haf skilur að Ísland og Evrópusambandið þegar kemur að nýtingu sjávarauðlinda. Hér á landi er til að mynda kvartað undan of miklum hagnaði útgerðar en í Evrópu þurfa þær stuðning skattgreiðenda. Hér við land er ábyrg nýting fiskstofna en gegndarlaus ofnýting innan Evrópusambandsins. En af hverju sneru menn sér ekki strax að viðræðum um stóra málið, sjávarútveginn? Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis í apríl kom fram að ESB vill ekki ræða um sjávarútveginn þrátt fyrir þrábeiðni samninganefndar Íslands. Og ríkisstjórn Íslands og svokallaður stjórnarmeirihluti hennar lætur bjóða sér slíka lítilsvirðingu gagnvart mikilvægustu hagsmunum landsins. Áætlað hefur verið að aðildarviðræðurnar muni kosta íslenska skattgreiðendur hátt í einn milljarð króna. Með öðrum orðum er búið að eyða mörgum árum og enn fleiri milljónum króna í samningahjal um mál sem flest eru léttvæg á meðan stóru málin sitja á hakanum. Auðvitað hefði verið eðlilegt að ákafamenn um inngöngu Íslands í ESB settu það sem skilyrði í samningaviðræðunum að mikilvægustu hagsmunir Íslendinga yrðu ræddir fyrst. Að þeim tilraunum loknum hefðu menn svo getað metið stöðuna og tekið ákvörðun um hvort nokkrum árum og hundruðum milljóna til viðbótar væri eyðandi í að »aðlaga« Ísland að tilskipunum Evrópusambandsins um lestarteina og skipaskurði. Það var og er rangt að sækja um aðild að ESB. Og verklagið er það sem kallast að byrja á öfugum enda.Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2012.