Menu

Hagsæld og umhverfisvernd

13/11/2016 - Fréttir
Hagsæld og umhverfisvernd

Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál til umræðu við ýmis tilefni. Allir frambjóðendur lýstu yfir miklum stuðningi við náttúruna og oft var nefnt að umhverfismálin þyrftu að vera í forgangi næstu ár. „Hvað ætlar flokkurinn að gera í umhverfismálum?“ vorum við frambjóðendur oft spurðir, svolítið eins og það þurfi að gera eitthvað sem hönd á festir ef menn ætla að standa við það að vera umhverfissinnar. Það var eitt og annað sem flokkarnir gátu nefnt sem beinar aðgerðir í umhverfismálum. Sumir lofuðu að leggja á »græna« skatta. Aðrir nefndu að banna ætti olíuvinnslu, og telja þá væntanlega það mikla ólukku ef hér við land fyndist olía. Flestir ef ekki allir voru sammála um að skoða vel kosti þess og galla að gera hálendið allt að þjóðgarði. Fleiri ágæt mál voru rædd og ég fyrir mitt leyti lærði sitthvað.

Mér hefur þótt svolítið skorta að menn líti til þess sem vel er gert og þess sem hefur virkað í umhverfismálum. Við höfum vissulega ágæt dæmi um árangur í umhverfisvernd. Sjávarútvegskerfið okkar hefur gert okkur kleift að byggja upp og viðhalda fiskistofnum sem áður höfðu hrunið vegna ofveiði. Þetta er trúlega eitt mikilvægasta framlag okkar til náttúruverndar á heimsvísu. Laxveiðiárnar okkar eru sömuleiðis dæmi um að skýr nýtingarréttur stuðlar að skynsamlegri umgengni.

Aukin hagsæld leiðir til aukins áhuga á umhverfismálum. Með bættum hag og auknum frítíma aukast möguleikar manna til að njóta náttúrunnar hvort sem það er með veiði, gönguferðum, fuglaskoðun, hjólreiðum, jeppaferðum á fjöll og jökla, skógrækt eða endurheimt votlendis. Já ég tel endurheimt votlendis upp hér því hún er ekki aðeins orðin áhugamál fuglavina, en votlendi er mikilvægasta athvarf margra fuglategunda, heldur eru fleiri hagsmunir þar undir. Votlendið er einnig mikilvægt fyrir vatnasvæði áa og stöðuvatna og þar með fyrir þá sem hafa tekjur af stangveiði. Svo hafa rannsóknir leitt í ljós að framræst land er stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Fyrirtæki og einstaklingar geta því kolefnisjafnað starfsemi sína með endurheimt votlendis og einhverjir eru þegar farnir af stað með slík verkefni.

Flestir ef ekki allir eru sammála um að æskilegt sé að bæta umhverfið og vernda náttúruna en stundum þarf einnig að bæta heiminn og lífsskilyrði mannsins með því að nýta auðlindir náttúrunnar. Það er skilyrði að slík nýting sé ekki knúin áfram af ríkisstyrkjum eða náttúran undirverðlögð með öðrum hætti. Skýr nýtingar- eða eignarréttur á náttúruauðlindum dregur á hinn bóginn úr líkum á því að skammtímasjónarmið ráði för þegar ákvörðun er tekin um nýtingu.

Með bættum hag og auknum frítíma aukast möguleikar manna til að njóta náttúrunnar hvort sem það er með veiði, gönguferðum, fuglaskoðun, hjólreiðum, jeppaferðum á fjöll og jökla, skógrækt eða endurheimt votlendis.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 6. nóvember 2016. – saa@althingi.is