Menu

Heima hjá Stalín

18/08/2016 - Fréttir
Heima hjá Stalín

Á ferð minni til Tbilisi í Georgíu fyrr í sumar heimsótti ég fæðingarbæ Jósefs Stalíns. Gori er lítil borg um 80 km vestur af Tbilisi. Þar var árið 1957 sett á laggirnar safn til heiðurs Stalín. „Til heiðurs“ segi ég því þótt safnið geri ævi Stalíns nokkur skil verður það ekki sakað um málalengingar um „störf“ þessa grimma leiðtoga Sovétríkjanna á fyrri hluta síðustu aldar. Ég áttaði mig reyndar ekki á því hversu undarleg hugmyndin um safn um mann eins og Stalín væri kannski fyrr en ég gekk inn í minjagripaverslun í anddyri safnis. Þar voru til sölu meðal annars stuttermabolir með mynd af Stalín, pennar með áletruninni Joseph Stalin og gullbryddaðar veggmyndir á flaueli af þessum syni Gori. Ég varð hálf hvumsa við þessari markaðssetningu, steingleymdi meira að segja að taka myndir en spurði afgreiðslukonuna hvort fólk keypti virkilega þessa hluti. Það var fátt um svör en ég hugsaði með mér – hvað yrði sagt ef Austurríkismenn í heimabæ Hiters færu að selja treyjur myndskreyttar með foringjanum? Ætlu menn yrðu ekki litnir hornauga ef þeir drægju upp úr vasa sínum penna með áletruninni Adolf Hitler. Hvaða fólk er það þá sem kvittar undir viðskipti sín með penna merktum Stalín?

Á safninu kenndi annars ýmissa grasa. Auk ljósmynda og bréfa Stalíns voru til sýnis persónulegir munir úr hans eigu og gjafir frá erlendum erindrekum að ógleymdri helgrímu karlsins. Húsgögnum úr stjórnarráði hans hefur verið raðað upp nákvæmlega eins og þeim var komið fyrir á sínum tíma í Moskvu. Fyrir utan safnið hefur húsið sem Stalín fæddist í verið varðveitt. Þar stendur einnig járnbrautalest sú sem hann notaði jafnan til langferða því auðvitað var böðullinn Stalín flughræddur. Á leið okkar út úr safninu og í átt að járnbrautarlestinni spurði ég leiðsögukonu safnsins hvort það væri virkilega ekkert fjallað um stjónartíð hans sem slíka. Jú reyndar væri herbergi hér til hliðar þar sem minnst væri fórnarlamba hans úr Gúlaginu, – sagði hún. „Viljiði sjá það“, spurði hún. Jú, við játtum því samferðarmenn mínir og ég og leiðsögumaðurinn gerði reka að því að koma okkur inn í herlegheitin. Herbergið var hins vegar læst og „sú sem var með lykilinn er farin í dag“. Þar með var það mál úr sögunni.

Hvað efnistök safnins varðar má hafa í huga að safnið opnaði fjórum árum eftir að Stalín lést. Ári áður, 25. febrúar 1956, hafði Níkíta Khrústsjov þáverandi aðalritari kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna flutt ræðu á fundi flokksins þar sem ódæðum Stalíns var lýst. Ræða þessi spurðist fljótt út út um heim allan og áttu þá bágt margir aðdáendur Stalíns sem sumir neituðu að trúa. Ekki er ólíklegt að fréttin hafi borist seint og illa til Gori en það réttlætir varla uppsetningu Stalín safnsins. Almenna bókafélagið gaf reyndar út fyrr á þessu ári Leyniræðu Khrústsjov.

L1070700

L1070703

Stjórnarráð Stalíns

L1070701

L1070694

Hvern vantar ekki svona skriðdrekalampa?

L1070691

 

L1070704

Hér hófst hryllingurinn.

L1070705

 

L1070713

Járnbrautarlest Stalíns var vel útbúin. Baðkar meira að segja.

ll L1070716

 

Stalínbuð

Má bjóða ykkur nærboli? Myndir úr minjagripaverslunni tók samferðarkona mín.