Menu

Heimatilbúinn hausverkur

19/07/2015 - Fréttir, Greinasafn
Heimatilbúinn hausverkur

Því er stundum haldið fram að nauðsynlegt sé að viðhalda tollum til þess að eiga skiptimynt í samskiptum við aðrar þjóðir. Til þess að fá aðrar þjóðir til þess að fella niður tolla af íslenskum vörum verði að vera hægt að bjóða þessum þjóðum að fella niður tolla af vörum frá þeim. Þessi vafasama kenning er í besta falli misskilingur á eðli viðskipta og samskipta þjóða en í versta falli blekking í þágu sérhagsmuna.

Í upphafi þessa árs gerðust undur og stórmerki. Vörugjöld, sem eru ein tegund tolla og hafa verið lögð á vörur frá árinu 1988, voru afnumin af öllum svokölluðum almennum vörum. Lampar, gírkassar og gólfefni sem á var lagður 15% vörugjald bera nú „aðeins“ virðisaukaskatt. Kæliskápar og bakarofnar losnuðu við 20% vörugjöld og útvörp losnuðu við 25% vörugjald, svo dæmi séu tekin. Það er afrek hjá nýrri ríkisstjórn að hafa útrýmt svo háum og rótgrónum skatti í einu vetfangi, áður en kjörtímabilið var hálfnað.

En hví skyldi enginn hafa hlekkjað sig við tollhúsið í miðbænum og krafist þess að vörugjöld yrðu áfram á örbylgjuofnum þar til SuðurKóreubúar hættu að skattleggja frosinn fisk? Já og á Siemens-frystikistum, svona bara til að hafa eitthvað á Merkel ef hún og hennar ESB ætlaði nú að fara að tuddast eitthvað í okkur í framtíð inni? Af því að Suður-Kórea, Þýskaland, ESB eða önnur lönd heimsins kipptu sér ekki upp við vörugjöldin á Íslandi. Vörugjöld á Íslandi voru aðallega vandamál fyrir Íslendinga. Fyrir utan að hækka vöruverð með beinum hætti þá drógu þau úr vöruúrvali og þar með samkeppni á íslenskum markaði og héldu þannig aftur af lækkun vöruverðs með óbeinum hætti.

Það sama á við um tollana sem enn eru lagðir á landbúnaðarvörur, vörur frá löndum utan EES og vörugjöldin á bifreiðar og eldsneyti. Fólk í öðrum löndum missir ekki svefn yfir þessum tollum á Íslandi. Bandaríkin munu ekki setjast niður við samningaborðið með Íslandi til þess að fella niður sína tolla vegna tolla hér á landi. Trúi menn því hins vegar að tollar séu skiptimynt í samskiptum lítillar eyjþjóðar við stórþjóðir ættu menn einmitt að fagna því að Ísland hafi frumkvæði að afnámi tolla. Aðrar þjóðir hafa þá ekkert upp á okkur að klaga. Við verðum kannski fyrst þjóða í Evrópu til að vaxa upp úr þeim sandkassaleik að benda á tolla einhvers annars þegar okkar eigin tollar eru til umræðu. Þess vegna er það frábært að nú liggur fyrir að tollar verði, líkt og vörugjöldin, afnumdir af öllum vörum nema landbúnaðarvörum fyrir lok þessa kjörtímabils. Það mun hafa í för með sér gagnsæi í vöruverði, aukna samkeppni og lækkun vöruverðs en umfram allt betra siðferði við tekjuöflun ríkisins.

>>Vörugjöldin voru alfariðheimatilbúinn hausverkur og skertu aðallega okkar eigin lífskjör. Ef aðrar þjóðir vilja skerða lífskjör sín með tollum þarf Ísland ekki að svara með því að skerða frelsi og lífskjör íslenskra neytenda.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2015.