Menu

Hversu langt nær sjálfstæðið

28/09/2014 - Fréttir, Greinasafn

Þar sem ég sat við sjónvarpið um daginn og beið eftir niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni í Skotlandi vonaði ég að sjálfstæðissinnar hefðu haft betur. Ég á reyndar engra hagsmuna að gæta í Skotlandi, eða á Bretlandi yfirleitt. Ég fer sjaldan á þessar slóðir og þekki í raun lítið til dagslegs lífs hins svokallaða venjulega manns á eyjunni miklu. Álitaefni um sjálfstæði þjóðar eru hins vegar ekki staðbundin og því var fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttu já- og nei-manna.

Kosningabaráttan var hefðbundin sem slík. Slagorð og hræðsluáróður á báða bóga. Ég var fegin að fylgjast með baráttunni úr fjarlægð og geta þannig óhikað stutt sjálfstæðissinna. Það hvarflar að mér að efi hefði sótt að mér hefði ég verið í meira návígi við ómálefnalegan málflutning sjálfstæðissinna en eitt helsta vopn þeirra var, að þeirra mati, að með sjálfstæði þyrfti Skotland aldrei að þola ríkisstjórn íhaldsmanna. Ætli hræðsluáróður sambandssinna eins og Gordons Browns, sem „hótuðu“ því að höfuðstöðvar hins marggjaldþrota banka RBS myndu hverfa frá Skotlandi, hefði þó ekki vegið á móti.

Jú, ég hefði kosið með sjálfstæði Skotlands.

En þótt sjálfstæði þjóðar skipti miklu máli þá skiptir sjálfstæði einstaklinganna meira máli. Það er lítið varið í að búa í sjálfstæðu ríki ef stjórnvöld þar haga sér eins og bestíur. Sjálfstæðir verða einstaklingar ekki nema þeir njóti frelsis til þess að haga sínum málum sjálfir. Fátt skerðir frelsi manna meira en skattur, sem er ekki annað en eignaupptaka. Sjálfstæðissinnarnir í Skotlandi lögðu mikla áherslu á að fá skattlagningarvaldið heim til Skotlands. Ég er sammála því að best fari á því að skattlagning fari fram sem næst þeim sem þurfa að búa við hana. Stjórnmálamenn veigra sér alla jafna við að þjösnast á þeim sem næst þeim standa. Því er meiri von til þess að skattlagningu sé stillt í hóf þegar henni er ráðið sem næst skattgreiðendunum.

Sjálfstæðissinnarnir í Skotlandi fjölluðu hins vegar ekkert um þetta í kosningabaráttunni. Þvert á móti gaf málflutningur þeirra til kynna að þeir hefðu áhuga á meiri skattlagningu en tíðkast hefur á eyjunni. Þeirra málflutningur gaf þannig ekkert tilefni til þess að ætla þeir vildu meira sjálfstæði fyrir Skota, heldur bara Skotland. En samt eiginlega ekki heldur því sjálfstæðissinnarnir vildu áfram vera í Evrópusambandinu og lúta reglusetningu um hvaðeina frá Brussel.

Þrátt fyrir öll þau undarlegheit sem mörkuðu þessa þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi, bæði að formi til og efni, hefði ég samt stutt sjálfstæði Skotlands í þeirri von að sjálfstætt ríki auki líkurnar á því að einstaklingarnir verði sjálfstæðir.

Fátt bendir til að þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi hafi lotið að sjálfstæði Skota.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28. september 2014.