Menu

Hvert stjórnarskrárorð er dýrt

20/10/2012 - Greinasafn

Nú berst hópur þjóðkunnra ákafamanna fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá landsins og þar með æðsta réttarheimild í landinu, sem allar aðrar víkja fyrir. Hver einasta setning sem leidd er í stjórnarskrá getur haft verulegar afleiðingar á ólíklegustu sviðum. Menn verða því að vanda sig þegar stjórnarskrá er hnikað til, enda er þess gætt í öllum löndum að slíkt sé ekki gert nema að mjög vandlega ígrunduðu máli, að fenginni víðtækri samstöðu og þungar skorður settar við því hvernig unnt er að breyta stjórnarskrá. Sama hefur átt við hér á landi þar til mjög nýlega að ný stjórnvöld réðust skyndilega að stjórnarskránni, strengdu þess heit að koma henni fyrir kattarnef og fá í staðinn aðra sem betur félli að pólitískum stundarmeinlokum æstustu stuðningsmanna stjórnarinnar. Ein afleiðing þessa hernaðar gegn stjórnarskránni birtist í þeirri furðulegu atkvæðagreiðslu sem þjóðinni er stefnt til nú um helgina.

Orð skipta máli

Stjórnarskrá hefur slíkt gildi, að öll önnur lög, reglugerðir, samþykktir og hvað eina annað víkur fyrir henni. Hvert einasta orð í stjórnarskrá getur því verið dýrt. Tillaga stjórnlagaráðs sem þjóðinni er ætlað að kjósa um á morgun úir og grúir af ákvæðum sem virðast vera lítt eða ekki hugsuð, með þetta í huga. Af mýmörgum dæmum má nefna eftirfarandi: Stjórnlagaráð leggur til að í 8. grein nýrrar stjórnarskrár standi þessi fallegu orð: „Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“ Þetta hljómar nú ljúft við fyrsta lestur. En hvaða afleiðingar hefur það, þegar slíkur texti er settur í stjórnarskrá? Þá er hann ekki lengur ljúfur fagurgali eða falleg stefnuskrá, heldur æðsta réttarheimild í landinu. Hvað þýðir það, þegar sett er í stjórnarskrá landsins að „margbreytileiki mannlífsins“ skuli virtur „í hvívetna“? Í greinargerð „stjórnlagaráðs“ eru þessi orð útskýrð með óljósu fjasi um að hér sé á ferð einhver leiðbeining um það hvernig túlka beri einhver önnur ákvæði um mismunun. En slíkt hjal í greinargerð breytir ekki texta ákvæðisins, enda er það hann einn sem fær gildi, en ekki greinargerðin. Og frammi fyrir hverju stöndum við þá?

Ekkert mætti draga úr „margbreytileikanum“

Jú, við stöndum þá frammi fyrir því, að öll lagaákvæði, allar reglugerðir, allar lögreglusamþykktir, öll opinber fyrirmæli sem ekki virða í hvívetna „margbreytileika mannlífsins“ falla í reynd úr gildi. Og hvað er ekki margbreytileiki mannlífsins? Maður sem vill vera drukkinn á Austurvelli allan eftirmiðdaginn, er hann ekki hluti af margbreytileika mannlífsins? Sá sem vill spila tónlistina sína á hæsta styrk alla nóttina, er hann það ekki líka? Eða sá sem vill ganga nakinn um miðbæinn í hádeginu? „Margbreytileiki mannlífsins“ er ekki bara það sem okkur finnst jákvætt, skemmtilegt og sjarmerandi við náungann. „Margbreytileiki mannlífsins“ er nefnilega margbreytilegur. Og ef tillaga „stjórnlagaráðs“ verður að veruleika, hefur skyldan til að virða margbreytileikann „í hvívetna“ verið gerð að æðstu réttarheimild landsins. Það getur vel verið að sú niðurstaða hafi ekki vakað fyrir fulltrúum í stjórnlagaráði en þeir eins og aðrir landsmenn sætu uppi með þetta stjórnarskrárákvæði, ef svo illa færi að tillaga þeirra yrði samþykkt. Dómstólum yrði látið það eftir skýra út margbreytileika mannlífsins.

Ekki hægt að samþykkja tillöguna

Þetta litla dæmi er aðeins eitt af fjölmörgum um það hversu vanhugsuð tillaga stjórnlagaráðs er. Það, að ætlast til þess að landsmenn, sem flestir eru önnum kafnir við að sjá fyrir sér og sínum, leggist yfir tillögur að 114 nýjum stjórnarskrárgreinum, sem flestar hafa hlotið litla sem enga opinbera umræðu, og velti fyrir sér hvaða áhrif samþykkt þeirra hefði á daglegt líf þeirra á næstu árum og áratugum, er hrein og klár frekja. Yrði tillaga stjórnlagaráðs samþykkt þá yrðu ótal hlutir í landinu hreinlega settir á annan endann. Það er líklega engin tilviljun að varla nokkur maður tekur opinberlega undir með stjórnlagaráðsliðunum, nema helst þeir sem undanfarin ár hafa sýnt mikinn vilja til að bylta sem flestu í landinu, byltingarinnar vegna. Mjög margt sómakært fólk hyggst sitja heima á laugardaginn og sýna með því vanþóknun sína á atlögu stjórnvalda að stjórnarskránni. Það er vissulega mjög skiljanleg afstaða. Sjálf hef ég hins vegar komist að þeirri niðurstöðu fyrir mig, að tillaga stjórnlagaráðs sé svo varhugaverð að nauðsynlegt sé að fara á kjörstað og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til varnar. Atlaga núverandi stjórnvalda að stjórnarskrá landsins má nefnilega ekki takast. Afleiðingar þess gætu orðið óskaplegar í bráð og lengd.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012.