Menu

Icesave – in memoriam

17/01/2016 - Fréttir, Greinasafn
Icesave – in memoriam

Icesave-kröfuhafar hafa lokið viðskiptum sínum hér á landi. Í upphafi þessa árs fengu þeir lokagreiðslur úr þrotabúi Landsbankans sem hefur jafnt og þétt greitt þeim upp í höfuðstól krafna þeirra. Það má í sjálfu sér vera ánægjulegt hversu lítið hefur farið fyrir þessum málalyktum. Þær vörðuðu nefnilega bara þrotabú Landsbankans og þessa kröfuhafa sem áttu kröfu í þrotabúið. Ef marka má takmarkaðar fréttir af málinu þá varð það á endanum niðurstaðan að Icesave-kröfuhafarnir, Bretar og Hollendingar, fengu allan höfuðstól krafna sinna frá þrotabúinu. Jón og Gunna hafa undanfarið ekki þurft að hafa áhyggjur af þessu máli, hvernig svo sem því hefði lyktað. Aðstæðurnar hefðu hins vegar getað verið öðruvísi.

Jón og Gunna gætu verið í svitabaði í dag þrátt fyrir fulla höfuðstólsgreiðslu þrotabús Landsbankans til Icesave-kröfuhafanna. Bretar og Hollendingar gerðu nefnilega líka kröfu um greiðslu vaxta af höfuðstólnum og kostnaðar af umstanginu. Það var frá upphafi augljóst að þá kröfu fengju þeir aldrei úr þrotabúinu. Af fádæma litlu sjálfsöryggi og skorti á stjórnfestu samdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar, þess vegna við kröfuhafana um að Jón og Gunna ásamt öðrum íslenskum skattgreiðendum myndu bera ábyrgð á öllu heila klabbinu, langt umfram þá 20 milljarða sem búið var að fallast á að Tryggingajóður innstæðueigenda stæði undir. Það átti að munstra sjóðinn til þess að skuldsetja sig til að geta fullnægt meðal annars vaxta- og kostnaðarkröfum Breta og Hollendinga. Icesave-samningar vinstri stjórnarinnar gerðu ráð fyrir þeim möguleika að Jóni og Gunnu væri haldið uppteknum við efnið til ársins 2046!

Skömm þeirra sem samþykktu Icesave-samningana er mikil. Sumir þeirra hafa viðurkennt mistök í þeim efnum, aðrir kjósa að „líta bara til framtíðar“ eins og það er kallað. Gott og vel. Hver flýgur eins og hann er fiðraður og auðvitað er það ekki markmið í sjálfu sér að dvelja í fortíðinni. Icesave-mistökin, sem að einhverju leyti má afsaka með minnimáttarkennd og alltof miklu trausti á næsta manni, fölna þó í samanburði við tilburði þeirra sem þessa dagana gera lítið úr andstöðu þjóðarinnar við Icesave-samninga. „Lýðskrum“ kallar einn það og annar færir fyrir því veikburða rök að þjóðinni hefði í raun farnast betur ef Jón og Gunna hefðu bara samþykkt löglausar kröfur frá Evrópu, upp á 647 milljarða auk vaxta.

Enginn ágreiningur var um að Bretar og Hollendingar áttu lögvarðar kröfur á Íslandi. Þær kröfur beindust hins vegar ekki að íslenskum skattgreiðendum heldur þrotabúi Landsbankans. Um það snerist Icesave-deilan.

Skömm þeirra sem samþykktu Icesave-samningana fölnar í samanburði við tilburði þeirra sem þessa dagana gera lítið úr andstöðu þjóðarinnar við löglausar kröfur frá Evrópu.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. janúar 2016.