Menu

Kostar ekkert að ferðast um landið?

07/12/2014 - Fréttir, Greinasafn
Kostar ekkert að ferðast um landið?

Það kostar fjölskyldu úr Reykjavík tugi þúsunda að aka norður að Dettifossi, láta niðinn og flauminn dáleiða sig um stund. Mestur hluti kostnaðarins er ferðakostnaður en stór hluti hans er ofboðsleg skattlagning á bíla og eldsneyti. Ég hef þó ekki heyrt umræðu um að sú skattlagning komi í veg fyrir að fólk geti farið um landið sitt að vild, sem hún gerir þó augljóslega. Á venjulegu heimili þarfnast það vitanlega umhugsunar hvort eyða eigi tugum þúsunda í tjaldferð á heimilisbílnum í annan landshluta.

Eftir að erlendum ferðamönnum fjölgaði mjög er ljóst að margir fallegustu staðanna á Íslandi þurfa miklu meiri vernd, viðhald og aðstöðu en áður. Hver á að greiða kostnað við göngustíga, bílastæði, salerni, sorphirðu og landvörslu? Þar sem ríkið fer með eignarhald og rekstur á náttúruperlum er um tvo kosti að ræða. Annars vegar að almennir skattgreiðendur beri kostnaðinn eða þeir sem sækja staðina heim og nýta sér þá þjónustu sem þar er boðið upp á. Ef farið er í vasa skattgreiðenda eftir þessum fjármunum lendir þessi kostnaður að mestu leyti á Íslendingum. Ef menn greiða fyrir þjónustuna á hverjum stað munu erlendir ferðamenn greiða stóran hluta af þessum kostnaði.

Hugmyndir hafa verið uppi um að ferðalangar geti greitt fyrir aðgang að öllum helstu náttúruperlum í einu lagi með svonefndum náttúrupassa. Ég hygg að sú leið sé of miðstýrð og ósveigjanleg þótt hún kunni að virðast einföld í fyrstu. Ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga væri til að mynda gott að geta haft mismunandi gjald á vinsælustu stöðunum til að dreifa álagingu. Þá má gera ráð fyrir að jafnvel væri ekkert gjald á vissum tímum þar sem aðsóknin stæði vart undir gjaldtökunni. Það er líka bara allt í lagi að menn þrói ólíkar leiðir í þessum efnum. Á einum stað kann að vera nóg að menn greiði gjald fyrir bílastæði, tjaldstæði eða aðra beina þjónustu en aðrir staðir þyrftu að hafa einhvers konar aðgangseyri fyrir þá óbeinu og oft vanþökkuðu þjónustu sem almenn aðstaða á borð við göngustíga og salerni eru. Einhverjum gæti líka þótt það markmið út af fyrir sig að tekjur og atvinna verði af þessu vítt og breitt um landið fremur en á einum kontór í Reykjavík.

Dæmi: Rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs kostar ríkissjóð 350 milljónir á ári (2014). Það eru yfir 4000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ef menn vilja að erlendir ferðamenn taki þátt í þessum kostnaði liggur beint við að taka einhvers konar gjald af þeim þegar þeir fara um garðinn. Er nokkuð því til fyrirstöðu að hinni ágætu sjö manna stjórn sem sett er yfir garðinn verði falið að finna frekari leiðir til þess í rólegheitum?

Náttúrupassi eða ekki. Kostnaður við rekstur þjóðgarðanna er staðreynd. Leyfum erlendum ferðamönnum að taka þátt í honum með okkur.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. desember 2014.