Lof og loftslag í París

Fréttir af nýafstaðinni loftslagsráðstefnu í París (já afsakið en ekki hætta að lesa) hófust flestar á frásögn af því að nýjum samningi um loftslagsmál hefði verið mjög vel tekið, „hampað“ var orðalagið í einni frétt. Hún var alveg fölskvalaus gleðin sem fréttamenn miðluðu af fundinum. Þeir bættu reyndar um betur því lotning íslensku fréttamannanna gagnvart ráðstefnunni og afurðum hennar var þvílík að jaðraði við geðshræringu. Fréttamenn kepptust við að segja, andstuttir, fréttir af sjálfum sér í biðröð eftir drögum að nýjum samningi. Það var spenna í loftinu. Minna fór fyrir fréttum af umræðum á fundinum eða um efni samkomulagsins sem náðist. Ekki ein rödd gagnrýni eða efasemda náði eyrum hlutlausra fréttamannanna. Markaðsdeild ráðstefnunnar tókst vel upp. Myndirnar af rúmlega miðaldra fundargestunum hoppandi, faðmandi hver annan og tárfellandi í gleðivímu voru hins vegar magnaðar. Er hippakynslóðin virkilega hætt að fara í almennileg partí?Árangurinn sem menn fögnuðu svo ákaft var markmið um að láta lofthjúpinn ekki hitna um meira en 2 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltingu (eða var það miðað við daginn í dag?), helst ekki meira en 1,5 gráður. Nú, þegar allir 40 þúsund gestir ráðstefnunnar hafa flogið til síns heima, er að renna upp fyrir mönnum að til að ná þessu markmiði þarf allur heimurinn að hætta að nota jarðefnaeldsneyti strax, alfarið. Olía, kol og gas anna 85% orkunotkunar mannkyns og það hlutfall hefur lítið breyst undanfarna áratugi. Auðvitað vona allir að aðrir orkugjafar geti veitt jarðefnaeldsneytinu harðari keppni en þangað til það gerist er vandséð að fundahöld um málið vegi þungt. Það er hins vegar raunhæft fyrir Ísland að draga verulega úr losun CO2 þar sem 72% af losuninni stafa frá framræstu landi eins og kom fram í skriflegu svari umhverfisráðherra við fyrirspurn minni í haust. Aðeins um 14% af framræsta landinu eru í rækt svo þarna eru mikil tækifæri fyrir áhugamenn um minni losun gróðurhúsalofttegunda.Þótt umhverfissinnar vilji ekki missa af alþjóðlegum veislum og gera sig gildandi í umræðu um umhverfismál þá eru hvorki Ísland né Íslendingar vandamál í loftslagsmálum. Áætlanir Íslendinga eru í raun ekki mjög áhugaverðar í þessu stóra samhengi þótt við getum deilt reynslu okkar af nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það eru hins vegar áform Kínverja og Indverja. Kínverjar bera þegar ábyrgð á drjúgum hluta losunar CO2 í heiminum en hafa kynnt áform um að ræsa 155 ný kolaknúin orkuver! Það hefði verið áhugavert að heyra sjónarmið Kínverja í París um þessi áform.

Það hlýtur að vera hægt að bjóða þessu fólki í betra partí en þetta.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 20. desember 2015.

Previous
Previous

Snakkmálið á nýjum SUS-vef

Next
Next

Þegar löggjöf dugar ekki