Menu

Lögin hafa aukaverkanir

05/07/2015 - Fréttir, Greinasafn
Lögin hafa aukaverkanir

Undantekningarlítið hafa lög, reglur og önnur ríkisafskipti að einhverju leyti aðrar afleiðingar en þeim er ætlað.

Þeir sem bönnuðu áfengi á fyrri hluta síðustu aldar hafa vafalaust ekki ætlað sér að renna stoðum undir starf glæpamanna og jafnvel glæpasamtaka eins og raunin varð víða á Vesturlöndum.

Alls kyns boð og bönn af þessu tagi, þar sem reynt er að stýra neyslu fullorðins fólks, færa framleiðslu og sölu með hið forboðna undir yfirborðið.

Svo eru það lögin sem taka af einum og færa öðrum.

Þeir sem lögðu drög að lögum um húsaleigubætur á sínum tíma hafa líklega ekki ætlað þeim að leiða til hærra leiguverðs og enda þar með í vasa leigusalans. Það er engu að síður sennileg niðurstaða af slíkum ríkisstyrkjum til leigjenda. Þeir sem sömdu lög um vaxtabætur á húsnæðislán hafa vonandi ekki heldur ætlað sér að færa fé frá skattgreiðendum til fjármálastofnana en að öllum líkindum leiða slíkir styrkir til lántöku til hærri vaxta á lánum íbúðarkaupenda en ella væri.

Þessi dæmi eru af löggjöf sem er ekki mjög flókin og í raun hefði mátt blasa við í upphafi að hún gæti haft þessar afleiðingar.

Það liggur í augum uppi að eftir því sem lög verða flóknari er hættara við alls kyns hliðarverkunum af þessu tagi og ekki síður að erfitt sé að koma auga á óæskilegar afleiðingar.

Lögum um endurnýjanlegt eldsneyti var ætlað að láta bíleigendur í gegnum ríkissjóð styðja framleiðslu á innlendu eldsneyti í nafni umhverfisverndar. Lögin eru byggð á miklum bálkum Evrópusambandsins um sama efni ásamt séríslenskum fjallabaksleiðum. Raunin varð hins vegar sú að ríkisstyrkirnir hafa að mestu leyti runnið úr landi til framleiðenda á endurnýjanlegu lífeldsneyti. Þar fór stuðningurinn við innlenda framleiðslu. Lífeldsneyti er að auki mjög umdeilt vegna þess að það er framleitt úr matjurtum. Í desember 2013 lagði hópur samtaka á borð við Greenpeace og Friends of Earth fram harða gagnrýni á stefnu Evrópuríkja varðandi lífeldsneyti því hún »leiddi til aukins en ekki minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda í samanburði við jarðefnaeldsneyti, hefði skógareyðingu í för með sér og skaðaði fjölbreytileika lífríkisins, hrekti smábændur af jörðum sínum og ógnaði fæðuöryggi fátækasta fólksins í veröldinni«. Þar fór umhverfisverndin fyrir lítið.

Þetta er ágætt að hafa í huga þegar menn ætla að leysa hvern vanda með nýjum lagabálki eða handfylli af skattfé.

>>Það liggur í augum uppi að eftir því sem lög verða fleiri og flóknari er meiri hætta á alls kyns óvæntum uppákomum og ekki síður að erfitt sé að koma auga á óæskilegar afleiðingar.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2015.