Menu

Neytendur eru besta vörnin

15/12/2016 - Fréttir
Neytendur eru besta vörnin

Ég var búin að ákveða að helga þennan pistil neytendamálum áður en brúneggjamálið kom upp. Þannig var að ég rak augun í að skór sem ég hafði augastað á og gat keypt á netinu kostuðu kaupanda á Íslandi 100 evrum meira en kaupanda í t.d. Finnlandi eða Frakklandi. Ég ritaði seljandanum bréf og spurði hverju þetta sætti. Varla væri sendingarkostnaði um að kenna, Finnland álíka afskekkt og langt frá framleiðanda og Ísland. Mér var svarað strax með vísan til þess að lönd utan ESB legðu á alls kyns gjöld sem seljanda bæri að greiða. Ég benti á að Ísland hefði sömu stöðu og ESB-ríki þegar kemur að viðskiptum með skófatnað. Við þessu brást seljandinn hratt, og vel svo langt sem það nær. Hann lækkaði verðið um 77 evrur með vísan til EES. Eftir stendur enn munur upp á 23 evrur sem nú er rökstuddur með vísan til leiðbeininga seljenda vörumerkisins hér á landi.

En er heimilt að mismuna viðskiptamönnum innan EES með þessum hætti? Sjálf er ég þeirrar skoðunar að samningsfrelsinu fylgi frelsi til þess að gera ekki samninga og einnig það að gera fráleita samninga, eins og t.d. samning um að borga hærra verð en allir aðrir.

Hvað sem líður þessari skoðun minni þá er það hins vegar þannig að samningsfrelsinu eru settar skorður í lögum, einkum er lýtur að efni samninga. Dæmi um þetta eru samkeppnislög. Sjaldgæfara er að menn séu skyldaðir til samninga en þó er það ólöglegt á öllu EES-svæðinu að ákveða að selja ekki hvítu fólki skó sem almennt eru til sölu eða loka veitingastað fyrir fötluðum. Í gildi er einnig tilskipun ESB nr. 2006/123 um þjónustu á innri markaðinum. Segir þar í 20. gr. að ríki skuli tryggja að í skilmálum fyrir þjónustu sem þjónustuveitandi býður öllum almenningi séu ekki ákvæði sem mismuni á grundvelli m.a. búsetu viðtakanda, ef ekki er hægt að rökstyðja slíkan mismun með hlutlægum viðmiðum.

Það hefur gengið upp og ofan að framfylgja öllum þeim reglum sem þrengja að samningsfrelsinu. Stofnanir sem settar hafa verið á fót til þess arna munu aldrei hafa slíka yfirsýn yfir markaðinn að þær geti látið sig varða öll þau álitaefni sem óneitanlega koma upp í jafnvel einföldustu viðskiptum manna. Til þess er markaðurinn of stór og síbreytilegur, sem betur fer. Svo hefur löggjafanum ekki einu sinni tekist að setja reglur sem taka af allan vafa um hvað má og hvað ekki. Áðurnefnd 20. gr. er dæmi um það, enda eru möguleg málsatvik svo fjölbreytt.

Eina virka aðhaldið á neytendamarkaði er frá neytendum sjálfum. Brúneggjamálið er ágætt dæmi um það og nú bíð ég eftir að sjá hvort samskipti mín við skóframleiðandann leiði ekki til þess að 23 evra verðmunurinn hverfi.

Rafræn viðskipti hafa opnað augu margra neytenda fyrir slæmum viðskiptaháttum.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. desember 2016. -saa@althingi.is