Menu

Píslarganga stjórnmálamanns

11/01/2015 - Fréttir, Greinasafn

Ég tel að betur fari á því að einstaklingar reki skóla en hið opinbera. Ég hef samt gengið menntaveginn að mestu leyti í opinberum skólum. Ég tel einnig að betur fari á því að starfsmenn í heilbrigðiskerfinu séu ekki bara launamenn hjá ríkinu heldur beri einnig ábyrgð á rekstrinum. Ég hef samt nýtt mér opinbera heilbrigðiskerfið. Þá finnst mér að fela eigi einkaaðilum meiri ábyrgð við vegagerð en nú er. Samt ek ég um á ríkislagða malbikinu, meira að segja Hvalfjörðinn fallega þótt einkavegur að sama áfangastað standi til boða. Mér þykja skattar á Íslandi alltof háir og hef barist fyrir lækkun þeirra með margvíslegum rökum. Ég borga þó alla álagða skatta. Ég lagðist gegn lögum um „laun“ til handa nýbökuðum foreldrum, úr hendi ríkisins, í mörgum tilfellum himinháum, í fæðingarorlofi. Ég er enn sömu skoðunar. Sjálf hef ég þó þegið greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, tvisvar. Er ég ósamkvæm sjálfri mér? Er það hræsni að ganga í opinberan skóla en vera um leið fylgjandi einkareknum skólum?

Ég hefði auðvitað getað sleppt því að lesa lögfræði við Háskóla Íslands og lært t.d. nudd í einum af fáum einkareknum skólunum sem þá störfuðu. Ég gæti líka tékkað mig inn á Mayo Clinic þegar ég verð veik. Þetta með göturnar og gangstéttarnar er vandasamara en mögulega gæti ég samið við borgarbúa um að mega ganga á grindverki og á lóðum þeirra heiman frá mér til vinnu. En væri öll þessi staðfesta baráttu minni til framdráttar? Þar sem ég sæti í fangelsi fyrir stórfelld skattundanskot, yrði þrýstingurinn um skattalækkun óbærilegur fyrir löggjafann?

Formaður Bjartrar framtíðar hefur eins og margir aðrir lagst mjög gegn leiðréttingunni svokölluðu, hann með þeim rökum að með henni væri verið að hjálpa fólki sem ekki þyrfti hjálp. Um áramótin lýsti hann því svo yfir að hann myndi ekki þiggja leiðréttinguna. Hann sótti að vísu um en að sögn í þeim tilgangi einum að hafna henni. Væntanlega líka í þeim tilgangi að geta upplýst um hversu mikla aðstoð hann væri að afþakka. Nú kann að vera að formaður þessi þiggi ekki barnabætur, vaxtabætur og fæðingarorlof svo dæmi séu tekin af aðgerðum til að hjálpa þeim sem minnst hafa. En ef það er ekki svo þá er yfirlýsing sem þessi dæmigert lýðskrum stjórnmálamanns. Fyrir utan að þjóna engum tilgangi öðrum en slá sjálfan sig til riddara gerir hann lítið úr þeim sem eru sammála honum um leiðréttinguna sem slíka en hafa hreinlega ekki efni á að láta hana fram hjá sér fara.

Og hví skyldu menn líka láta hjá líða að takmarka mögulegt tjón sitt af „leiðréttingunni“ t.d. vegna verðbólgu sem af henni hlýst, með því að þiggja ríkisstyrkinn?

>>Það getur verið þunn lína á milli lýðskrums og stefnufestu í stjórnmálum. Menn geta hins vegar farið eftir lögum þótt þeir séu þeim andvígir.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. janúar 2015.