Menu

Samið við sjálfan sig

20/03/2017 - Fréttir
Samið við sjálfan sig

Ekki fer vel á því að menn skammti sjálfum sér laun af annarra manna fé. Einhver gæti kallað slíkt sjálftöku. Þess vegna voru kjaramál þingmanna, sem fara með fjárveitingarvaldið í landinu, færð til kjararáðs. Það er full ástæða til að efast um að þingmenn séu hæfir til að fjalla um eigin kjör.

Með lögum er kjararáði skylt að hafa almenna launaþróun til hliðsjónar við ákvörðun launa þingmanna og ráðherra, auk annarra atriða. Þegar laun þingmanna eru skoðuð 10 ár aftur í tímann kemur í ljós að lengst af þessum tíma fylgdu laun þessara kjörnu fulltrúa ekki almennri launaþróun. Á árunum 2006 – 2014 hækkuðu laun á almennum markaði um 73% en laun þingmanna um 38%. Þar var þó ekki við kjararáð að sakast því þingmenn sjálfir gripu inn í þessi mál með lagasetningu og breyttu ákvörðunum kjararáðs á þessu tímabili. Eftir ákvörðun kjararáðs 30. október síðastliðinn hækkaði þingfararkaup hins vegar verulega, þó ekki afturvirkt eins og gjarnan á við á vinnumarkaði, og hefur þá frá árinu 2006 hækkað um 117% á meðan laun á almennum markaði hafa hækkað um 106%.

Forsætisnefnd alþingis brást nýlega við þessum tíðindum með því að lækka starfskostnaðargreiðslur þingmanna um 104 þúsund krónur á mánuði sem jafngildir um 150 þúsund króna launalækkun. Þar með má segja að launaþróun þingmanna sé aftur komin undir almenna þróun.

Þingmenn Pírata hafa nú lagt fram frumvarp um að alþingi taki enn á ný til sín ákvörðunarvald um kjör þingmanna. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að þingmenn þjóðarinnar skammti sjálfum sér laun og taki til viðmiðunar launaþróun frá því herrans ári 2013 þegar Píratar náðu fyrst kjöri á þing. Klappstýrur í þessum nýjasta harmleik Pírata koma úr óvæntri átt. Forsvarsmenn hinna svokölluðu aðila vinnumarkaðarins, sem allir sitja í skjóli þvingaðrar aðildar launþega að stéttarfélögum, hafa látið þung orð falla um launahækkun alþingismanna. Enginn þingmaður kemst hins vegar með tærnar þar sem þessir félagaforstjórar hafa hælana í launamálum. Eru jafnvel ekki hálfdrættingar á við þá í launum. En auðvitað hafa menn ekkert viljað ræða launin í sjálfu sér.

Telji aðilar vinnumarkaðarins að launaþróun 63 þjóðkjörinna manna valdi upplausn á vinnumarkaði, svo vitnað sé í ein stóryrðin sem heyrst hafa, má þá ekki velta því fyrir sér hvort viðkomandi verkalýðsforingjar og forstjóraforstjórar standi undir þeim launum sem þeir hafa skammtað sér úr vösum launþega? Valda þeir vinnunni?

Þetta eru nú mín sjónarmið um launamál kjörinna fulltrúa en með vísan til þess sem nefnt var í upphafi mega lesendur hafa á þeim sæmilegan fyrirvara því ég er einn fulltrúanna.

Eru það faglegu vinnubrögðin sem Píratar boða að þingmenn ákveði sjálfir laun sín?

Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 26. febrúar 2017 – saa@althingi.is