Menu

Sáttin um sjávarútveginn

30/08/2015 - Fréttir, Greinasafn
Sáttin um sjávarútveginn

Helstu kröfur andstæðinga aflamarkskerfisins í sjávarútvegi eru annars vegar að „allur afli fari á markað“ og hins vegar að „banna framsalið“.

Þetta eru ósamrýmanlegar kröfur. Markaður snýst jú um að geta framselt hlutina.

Það er reyndar misskilningur að afli sé ekki nú þegar á markaði. Hver sem er getur gert tilboð í fisk upp úr sjó enda er hann allur seldur eitthvert á endanum, en ekki fenginn ríkinu eða étinn af útgerðarmanninum.

Ekki nóg með það. Sjálfar veiðiheimildirnar eru líka á markaði. Þær má „framselja“, hvort sem er með leigu eða sölu. Þeir sem vilja banna „framsalið“ eru því að krefjast þess að kerfinu verði lokað og komið í veg fyrir nýliðun og hagkvæmni sem af henni hlýst.

Því má svo ekki gleyma að nánast allar veiðiheimildir á Íslandi hafa þegar skipt um hendur og þannig verið keyptar af núverandi handhöfum þeirra. Hafi einhvern tímann verið um „gjafakvótakerfi“ að ræða er það löngu liðin tíð.

Það er eitt að gagnrýna núverandi stjórn fiskveiða við Ísland og hamra sífellt á því að um hana sé ekki sátt. Hitt er svo annað að finna kerfi sem meiri sátt væri um. Mér sýnist nánast óteljandi hugmyndir á kreiki um hvað ætti að koma í staðinn fyrir núverandi fyrirkomulag. Eru menn vissir um að meiri sátt væri um einhverja þeirra? Þá kunna einhverjar að þykjast hafa svar við því með því að „vísa málinu til þjóðarinnar“ með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem telja sjávarútvegsmál henta vel í einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu verða þá einnig að svara því hve marga kosti og útfærslur ætti að tilgreina á atkvæðaseðlinum.

Þegar á allt er litið er íslenskur sjávarútvegur þó rekinn með hagnaði en ekki á ríkisstyrkjum eins og víða annars staðar. Hann greiðir alla almenna skatta og einnig sérstaka með veiðigjaldi. Fjöldi manna sem starfar við greinina, margir blessunarlega mjög tekjuháir, greiðir einnig skatta, því hærri sem tekjurnar eru meiri.

Ekki verður betur séð en að með aflamarkskerfinu hafi jafnframt tekist að koma í veg fyrir ofveiði og hrun fiskistofnanna við Ísland, ólíkt því sem gerist almennt í heiminum. Verðmæti aflaheimilda er beintengt því að veiðum sé stillt í hóf. Því betur sem útgerðarmenn ganga um auðlindina, þeim mun verðmætari verða aflaheimildir þeirra.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30. ágúst 2015. Mynd: canadastock/Shutterstock.