Menu

Staðreyndir um tölfræði

17/05/2015 - Fréttir, Greinasafn

Það hafa verið lögð fram 197 lagafrumvörp á alþingi í vetur. Af þessum frumvörpum hafa 47 verið samþykkt, hin bíða afgreiðslu í nefndum en 5 bíða 3. umræðu. Þessa talnaspeki og alls kyns aðra má finna á vefsíðu alþingis. Þessi tölfræði er ekki einungis til hagræðis fyrir innabúðarmenn heldur ekki síður fyrir almenning og þá sem láta sig einstök mál varða. Þingmálin mættu að ósekju vera mun færri en á meðan þau eru ekki fleiri eiga menn þó enn raunhæfan möguleika á að kynna sér þau. Hið víðtæka samráð þingsins við almenning sem felst í umsagnarferli fastanefnda þingsins stendur einnig að nokkru og fellur með því að fjöldi mála sé innan þeirra marka að hagsmunaaðilar ráði við að veita umsagnir um mál. Það er útilokað að tilgreina ákveðinn fjölda að þessu leyti en ég tel óhætt að fullyrða að þingið, og almenningur, ræður ekki við mikið fleiri mál en nú liggja fyrir alþingi.

Mörg lagafrumvarpa eru lögð fram í þeim tilgangi einum að innleiða reglur ESB, svokallaðar EES-gerðir sem oft eru flóknar og yfirgripsmiklar.

Þessar reglur ESB hafa verið settar án nokkurrar aðkomu Íslendinga, eðli máls samkvæmt, en hafa verið teknar upp í EES-samninginn með beinni aðkomu íslenskra embættismanna á vettvangi EES-samningsins. Í ESB eru í gildi í dag yfir 40 þúsund gerðir. Því hefur verið haldið fram Ísland þurfi að innleiða möglunarlaust allar gerðir ESB sem EES-samningurinn tekur til. Ég hef haft um þetta efasemdir og fékk í síðustu viku skriflegt svar frá utanríkisráðherra við fyrirspurn minni um það hversu oft og í hvaða tilvikum Ísland hafi óskað eftir undanþágum frá innleiðingu EES-gerða og hversu oft hafi verið fallist á slíkar beiðnir. Í svarinu kemur fram að um 10.460 gerðir hafi verið teknar upp í EES samninginn frá upphafi en í dag séu um 4.500 þeirra enn í gildi. Þetta kemur ekki á óvart.

Það væru þá ekki nema 35.000 gerðir sem við þyrftum að taka upp ef landið gengi í ESB. Það kemur heldur ekki á óvart að, þrátt fyrir fullyrðingar margra áhugamanna um inngöngu Íslands í ESB um annað, þá hefur Ísland samið um alls kyns undanþágur frá ESB gerðum í heild eða að hluta og eru í svari ráðherra rakin nokkur dæmi. Það sem kom mér hins vegar á óvart er að samkvæmt svarinu er engin tölfræði til um óskir Íslands um undanþágur. Þetta er afar bagalegt í ljósi mikilvægis gagnsæis, fyrirsjáanleika og samráðs við lagasetningu. Það er beinlínis fráleitt að halda því fram að Íslendingar eigi einhvern raunhæfan möguleika á þátttöku í lagasetningu ESB á jafnræðisgrunni. Raunin er sú að Ísland á í fullt í fangi með EES-samstarfið.

>>EES-reglur mega ekk rrenna skoðunarlaust inn í íslenskan rétt. Ekki má gefa afslátt af meginreglum við lagasetningu, um gagnsæi og
samráð við hagsmunaaðila.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2015.