Menu

Stjórnmálin og áhugaleysið

25/10/2015 - Fréttir, Greinasafn

Það virðist orðið sjálfstætt verkefni stjórnmálaflokkanna þessi misserin að vekja áhuga ungs fólks á stjórnmálum. Margir stjórnmálamenn lýsa yfir áhyggjum af því sem þeir telja litla þátttöku unga fólksins á þessum mikilvæga vettvangi og almennt áhugaleysi. Ég deili ekki endilega þessum áhyggjum kollega minna en get tekið undir að margt ungt fólk hefur ekki áhuga á stjórnmálum, en það á líka við um gamalt fólk og marga þar á milli.

Það geta verið margar ástæður fyrir því að menn, ungir sem aldnir, hafa ekki áhuga á pólitík. Það þarf í sjálfu sér ekki endilega að vera áhyggjuefni. Sumum þykir þeir einfaldlega hafa það svo gott að þá varði ekkert um hvað stjórnmálamenn eru að bardúsa. Lækkun skatta eða hækkun hefur ekki áhrif á þetta fólk svo nokkru nemi. Þeim er nokk sama um samgönguáætlun og byggingu nýs spítala. Þeir telja sig vita að þjónustan standi þeim takmarkalaust til boða hvernig sem allt fer. Svo eru aðrir sem eiga þvert á móti við önnur meira aðkallandi mál að etja en þau sem stjórnmálamenn fást við, mál sem ekki eiga heima á vettvangi stjórnmálanna eða mál sem fyrir löngu er ljóst að eru ofvaxin stjórnmálunum.

Sjálfsagt eru einhverjir sem meta það svo að það sé langsótt að afskipti þeirra af stjórnmálum skili árangri. Kerfið sé orðið svo stórt og þungt að því verði ekki haggað. Miklir sérhagsmunir á ríkisstofnunum og hagsmunir sem liggja í ívilnunum og fyrirgreiðslu hins opinbera muni ætíð vega þyngra en dreifðir hagsmunir skattgreiðenda. Þeir sem ganga lengst í þessa átt telja það jafnvel misráðið að mæta á kjörstað í almennum kosningum því það hvetji afskiptasömu stjórnmálamennina bara til dáða! Mæting sé í raun viðurkenning á útþenslu ríkisins. Þetta er áhyggjuefni, hvort sem um ungt eða eldra fólk er að ræða.

En svo eru þeir sem hafa misst áhugann á pólitík vegna þess að hún er að nokkru leyti orðin eins og hver önnur rekstrardeild í stórfyrirtæki þar sem einu ákvarðanirnar sem teknar eru lúta að rekstri fyrirtækisins frá degi til dags. Þarna hefur stjórnmálamönnum mistekist að draga skarpar og áhugaverðar línur.

Þess vegna var það ánægjulegt að í málefnanefndum sem hófu störf á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á föstudagsmorguninn var mætt margt ungt fólk sem mér sýndist hafa það að meginmarkmiði að skerpa á helstu stefnumálum flokksins og orða þau svo skýrt að menn sofni ekki undir lestrinum.

Sjálfsagt eru einhverjir sem meta það svo að það sé langsótt að afskipti þeirra af stjórnmálum skili árangri. Kerfið sé orðið svo stórt og þungt að því verði ekki haggað.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25. október 2015.