Menu

Stór orð eru dýr

22/11/2016 - Fréttir
Stór orð eru dýr

Markmið allra frambjóðenda og stjórnmálaflokka er að vinna kosningar. En það skiptir líka nokkru máli að vinna kosningabaráttuna. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Tapist kosningin þá hjálpar það óneitanlega á meðan sárin eru sleikt að hafa rekið góða kosningabaráttu. Að þurfa ekki að sjá eftir neinu sem sagt var eða ósagt látið, ekki skulda neinum neitt í orði eða á borði og í öllu falli að hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Gleymum því nefnilega ekki að í stjórnmálum er það dropinn sem holar steininn. Góð kosningabarátta er ekki verri vettvangur en hver annar til þess arna. Ég meinti það sem ég skrifaði hér rétt fyrir kosningar að það hefur þýðingu fyrir stjórnmálaflokk að ganga óbundinn til kosninga og að það skipti máli að koma vel undan kosningum. Hvort tveggja á við Sjálfstæðisflokkinn. Væru veitt verðlaun fyrir kosningabaráttuna gætu aðrir flokkar tæplega gert tilkall til þeirra. Gífuryrðin af þeirra hálfu voru of mikil og heitstrengingar um mál sem litlu skipta.

Trúlega hefur ekki öllu sjálfstæðisfólki þótt blasa við að ganga til viðræðna um ríkisstjórnarsamstarf við nýjan flokk sem stofnaður var sérstaklega til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Allt að einu var samhljómur um að láta á það reyna. Ýmsir höfðu enda bent á að málefnaleg samstaða væri með þessum flokkum í helstu málum. Þessir sjálfstæðismenn hljóta að hafa orðið undrandi að heyra haft eftir einum forsvarsmanna hins nýja flokks að tortryggni ríkti þar á bæ í garð Sjálfstæðisflokksins! Hvaða ástæðu skyldi hinn nýi flokkur hafa til að tortryggja Sjálfstæðisflokkinn? Tortryggni er ekki gott veganesti inn í samstarf. Hafi hins vegar einhver haft ástæðu til að nesta sig þannig upp í þessum viðræðum, væru það þá ekki frekar sjálfstæðismenn í viðræðum við þessi fyrrverandi flokkssystkin sín sem skelltu hurðum þegar þau fengu ekki framgengt á landsfundum málinu sínu eina um aðild Íslands að ESB? Ekki hefur undrunin minnkað við viðbrögð formanns Viðreisnar við viðræðuslitunum. Sú staðreynd að ríkisstjórn þessara flokka yrði ekki byggð á miklum meirihluta leiddi formanninn inn á þá braut að gera það tortryggilegt að búa yfir stórum þingflokki eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú. Í slíkum þingflokki væru »kannski ekki allir samstiga« eins og formaður nýja flokksins orðaði það.

Já, það hljóta allir að sjá að helsta vandamál hverrar ríkisstjórnar eru stórir þingflokkar en ekki litlir þingflokkar sem þurfa nú að standa við stór orð um lítil mál.

Hljóta ekki allir að sjá að stórir þingflokkar eru vandamál?

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 20. nóvember 2016. – saa@althingi.is