Menu

Þrefalt meiri dómarareynsla kom inn en fór út

17/01/2020 - Fréttir
Þrefalt meiri dómarareynsla kom inn en fór út

Ég hef ekki tölu á því hve því hefur oft verið haldið fram í fjölmiðlum að þær fjórar breytingar sem ég gerði á tillögum hæfnisnefndar við skipun Landsréttar – og Alþingi samþykkti svo –  hafi leitt til þess að umsækjendur með minni dómarareynslu hafi verið skipaðir. Að þessu er síðast ýjað í skrifum blaðamannsins Aðalheiðar Ámundadóttur (fyrrum oddvita, frambjóðanda, stjórnarskrárnefndarmanns og starfsmanns þingflokks Pírata) á vef Fréttablaðsins í dag.

Hér eru „einkunnir“ hæfnisnefndar fyrir liðinn „reynsla af dómstörfum“ fyrir þessa átta umsækjendur (og innan sviga væntanlegur rökstuðningur fyrir viðkomandi einkunn).

 

Einkunnir þeirra sem voru í tillögum ráðherra til Alþingis en ekki í tillögu hæfnisnefndar:

Jón Finnbjörnsson 9,5 (26 ára dómarareynsla auk 5 ára starfsreynslu við dómstóla).

Arnfríður Einarsdóttir 8,5 (14 ára dómarareynsla auk 10 ára starfsreynslu við dómstóla auk þess að hafa verið forseti Félagsdóms frá 2010).

Ragnheiður Bragadóttir 7,0 (14 ára dómarareynsla auk 10 ára starfsreynslu við dómstóla).

Ásmundur Helgason 6,0 (7 ára dómarareynsla auk 2,5 árs starfsreynslu við dómstóla auk þess að hafa verið dómari við Félagsdóm frá 2014 og setudómari í einu máli í Hæstarétti).

 

Einkunnir þeirra sem ráðherra gerði ekki tillögu um til Alþingis:

Jón Höskuldsson 5,5 (7 ára dómarareynsla).

Eiríkur Jónsson 3,5 (11 mánaða dómarareynsla auk reynslu sem dómkvaddur matsmaður).

Ástráður Haraldsson 1,0 (hafði tekið sæti í Félagsdómi í fimm málum.)

Jóhannes Rúnar Jóhannsson 0,5 (hafði setið í gerðardómsmálum í tveimur málum 2007).

 

Þótt menn láti stundum að því liggja þá eru einkunnir hæfnisnefndarinnar auðvitað engin nákvæmisvísindi því þar er alltaf eitthvað huglægt mat. Að því sögðu má í grófum dráttum segja að þrefalt meiri dómarareynsla hafi komið inn í hópinn en fór út úr honum með breytingunum sem ég gerði. En eins og ég hef margsagt voru allir þessi ágætu umsækjendur vel hæfir til að gegna embættunum. Þeir sem ekki höfðu mikla dómarareynslu höfðu góða reynslu á öðrum sviðum. Þarna var hins vegar verið að skipa menn í nýjan dómstól og áfrýjunardómstól og hlýtur því dómarareynsla að vera sérstaklega mikilvæg.

Æðsta stofnun ríkisins, Alþingi, hafði svo lokaorðið um þetta. Mér var ljóst eftir samtöl mín við leiðtoga flokkanna á þingi á þeim tíma að óbreytt tillaga hæfnisnefndar naut ekki stuðnings. Andstaðan við óbreyttar tillögur hæfnisnefndar var til að mynda hörð innan stjórnarflokkanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sama má segja um lykilflokka í þáverandi stjórnarandstöðu.

Þingið gat hafnað öllum eða einhverjum tillagna minna. Alþingi samþykkti þær hins vegar allar eftir að ég og fjöldi embættismanna og sérfræðinga hafði rætt þær fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Hæstiréttur hefur svo staðfest að dómararnir eru lögmætir í embættum sínum og að menn njóti sanngjarnrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti.

Aldrei áður hafa allir þrír þættir ríkisvaldsins staðið svo þétt að baki skipunar í dómstól hér á landi.