Úrtölumenn allra þjóða

usaeu1.jpg

Degi Leifs Eiríkssonar 9. október var fagnað af Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu með umræðu um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins (TTIP) sem áður hefur verið minnst á í þessum dálki. Sérstakur ræðumaður á fundi um málið var Tim Benett sem fer fyrir frjálsum félagasamtökum alþjóðafyrirtækja sem hafa höfuðstöðvar í Bandaríkjunum og Evrópu (Trans-Atlantic Business Council) og eru mjög áfram um að viðræðum um TTIP ljúki með fullgildingu fríverslunarsamnings.Önnur atvinnulífssamtök, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, eru sama sinnis og eftir því sem á líður viðræðurnar og fyrirbærið TTIP er meira kynnt fyrir almenningi fjölgar þeim sem vilja leggjast á árarnar í þeim tilgangi að ná jákvæðri niðurstöðu úr viðræðunum. Kostir fríverslunarsamnings milli þessara tveggja efnahagsstórvelda eru enda svo augljósir, ekki síst fyrir Evrópu sem glímir nú við efnahagsvanda sem ekki sér fyrir endann á þrátt fyrir sértækar stjórnvaldsaðgerðir í tilefni vandans.Stöðnunin í Evrópu verður ekki rofin öðruvísi en með afléttingu beinna og óbeinna hafta í viðskiptum við lönd utan Evrópu. Það getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða lítilla og meðalstórra fyrirtækja ef hægt er að draga úr beinum skrifræðiskostnaði við viðskipti yfir Atlantshafið. TTIP er einmitt ætlað að draga úr skrifræði og tilheyrandi kostnaði. Í þessu ljósi mætti ætla að það væri ekki mikið sem þyrfti að ræða í þessum viðræðum. En þá gleyma menn úrtölumönnunum. Ekki má vanmeta áhrif þeirra.Margir hafa auðvitað beina hagsmuni af því að viðskipti aukist ekki, það er að segja, viðskipti annarra. Sá sem framleiðir skrúfur og selur á tilteknu svæði er ekkert æstur í að skrúfur frá öðrum framleiðendum komi á markaðinn. Hann vill auðvitað ekki segja það beint, slíkt gæti beinlínis gert út af við hann og jafnvel komið honum í fangelsi ef samkeppnisyfirvöld geta mögulega komið því við. Miklu þægilegri leið til að halda öðrum skrúfum frá markaðinum er að gera þær tortryggilegar í augum neytenda. Fá jafnvel einhverja löggilta fræðinga með sér lið og halda því fram að skrúfgangurinn sé grunsamlegur því hann sé ekki í samræmi við „það sem við eigum að venjast“. Skrúfum má skipta hér út fyrir ost, kjúkling, stækkunargler, farsíma, vaðstígvél...Neikvæð umræða á þessum nótum mun koma upp hér á landi eins og annars staðar, ef réttar upplýsingar liggja ekki fyrir. Menn þurfa að geta myndað sér skoðun á kostum og göllum TTIP og vera upplýstir um viðræðurnar eins og þeim vindur fram. Fundur AMÍS sem nefndur var í upphafi var liður í þeirri viðleitni.

Þótt það blasi við að aflétting áratuga gamalla hafta í viðskiptum milli Evrópu og Bandaríkjanna sé forsenda hagvaxtar í Evrópu verða úrtöluraddirnar alltaf háværar.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. október 2014. Mynd: zentilia/Shutterstock.

Previous
Previous

Sérstakur og leitin að ástæðum bankahrunsins

Next
Next

Hversu langt nær sjálfstæðið