Viðbrögð við árás

Í vikunni bárust fréttir af enn einni skipulagðri árásinni á óbreytta borgara á Vesturlöndum, nú í Orlando í Bandaríkjunum. Mannskæðasta skotárás þar í landi, að því er sagt er. Fréttir af ódæðinu hafa ekki verið fyrirferðamiklar utan Bandaríkjanna. Óhætt er að segja að viðbrögð margra hafi verið með öðrum hætti en vegna sambærilegra árása í Evrópu upp á síðkastið. Byssueign í Bandaríkjunum kom strax til umræðu á samfélagsmiðlunum og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum voru ekki lengi að hoppa á þá vagna sem þeim hentar. Þá voru margir sannfærðir um að ódæðinu væri sérstaklega beint gegn samkynhneigðum.Þótt íslenskir fjölmiðlar hafi ekki flutt miklar fréttir af skotárásinni, mögulega vegna annarra íslenskra stórfrétta, er full ástæða til þess að velta fyrir sér fyrstu viðbrögðum við atburðum sem þessum. Í kjölfar skotárásar fyrir nokkrum árum fjallaði bandaríska tímaritið Reason um nokkur grundvallaratriði sem gott er að hafa í huga fyrstu dagana eftir svona hryðjuverk.Í fyrsta lagi eru allar staðreyndir máls óljósar í blábyrjun og fyrstu fréttir því bjagaðar. Það er því sjaldnast hægt að fullyrða um ástæður árása sem þessara skömmu eftir atburðina. Fyrstu fréttir af hatri Orlando-árásarmannsins á samkynhneigðum urðu enda undarlegar við síðari fréttir um að hann hefði sjálfur verið samkynhneigður.Í öðru lagi er fráleitt að alhæfa nokkuð út frá staðreyndum máls, til dæmis um innflytjendur, trúarbrögð eða stórnmálastefnur. Hömluleysi og ofstopi fyrirfinnst hjá fólki sem „tilheyrir“ alls konar hópum. Hóparnir sem slíkir verða ekki undir sömu sök seldir.Í þriðja lagi er ekki hægt að kenna „umræðunni“ í þjóðfélaginu um fjöldamorð, eða að hún sé í dag orðin svo rætin og hörð. Dæmi um þetta er árásin á teiknarana í París. Teikningar þeirra áttu að hafa drifið morðingjana áfram. En hvenær hefur ekki verið tekist hart á í „umræðunni“?Í fjórða lagi þarf að setja ódæðisverkið í samhengi við raunveruleikann. Skotárásir eru ekki faraldur í Bandaríkjunum eins og margir telja. Mannfall í skotárásum hefur snarminnkað og hefur reyndar ekki verið minna í 50 ár. Hví er annars fjallað um skotárásir á hóp manna í Bandaríkjunum sem einmitt það, skotárás á hóp manna, en skotárás á hóp manna í Evrópu er hins vegar flokkuð sem hryðjuverkaárás, eins og það sé eitthvað allt annað?Síðast en ekki síst ætti löggjafinn að sitja á sér á meðan mesta geðshræringin gengur yfir. Vilji menn til dæmis breyta byssulöggjöf á að gera það að yfirlögðu ráði en ekki vegna tiltekinna skorárása. Hvað fæst með því að banna byssueign almennings? Myndu glæpamennirnir bara skila inn sínum byssum?Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 19. júní 2016. / saa@althingi.is 

Previous
Previous

Ríkisstyrkir vegna kvikmyndagerðar

Next
Next

Nokkur góð mál