Menu

Viðskiptabann er sjálfsmark

27/09/2015 - Fréttir, Greinasafn
Viðskiptabann er sjálfsmark

Frjáls viðskipti eru ekki aðeins uppspretta hagsældar heldur stór þáttur í friðsamlegum samskiptum manna.

Ég eyddi nýlega nokkrum dögum í Ulaanbaatar, höfuðborg Mongólíu, sem ber þess enn nokkur merki að hafa verið undir hæl Sovétríkjanna þar til þau liðu undir lok. Áratuga vanræksla innviða blasir við og alþjóðavæðingin svokallaða, sem undanfarið hefur fært jafnvel afskekktustu bæjum vörumerki stórborganna, er ekki áberandi þarna. Ein helsta verslunarmiðstöð borgarinnar skammast sín ekkert fyrir fortíð sína frá síðustu öld og þar er enn verslað undir merkjum ríkisins, »State Department Store«. Það er fátt í Ulaanbaatar sem minnir á stórkostlega sögu Mongóla í alþjóðaverslun með endurreisn Gengis Khan á Silkileiðinni, þeirri miklu verslunarleið sem teygði sig frá Evrópu yfir alla Asíu að Kyrrahafi. Undir forystu Gengis skáru Mongólar upp herör gegn tollheimtumönnum, stigamönnum og öðrum hindrunum sem voru á vegi verslunarinnar á 13. og 14. öld. Hina miklu landvinninga Mongóla á þessum tíma má ekki síst rekja til áherslu þeirra á verslunarfrelsi sem hafði í för með sér hagsæld, jafnvel á þeim svæðum þar sem hernaðarbrölt þeirra hafði skilið eftir sig sviðna jörð.

En að deginum í dag. Þrátt fyrir að frjáls verslun sé undirstaða hagsældar um allan heim eru þeir stjórnmálamenn enn til sem tefla fram viðskiptabanni sem tæki til þess að ná pólitískum markmiðum sínum. Rússar hafa þannig lagt víðtækt bann við verslun með matvæli frá löndum Evrópu. Hér á landi hafa sumir sýnt því skilning og telja að bannið sé eðlileg hefndaraðgerð vegna samráðs ESB og fleiri ríkja um að selja ekki Rússum vopn og lána ekki peninga til ríkisbanka og ríkisfyrirtækja sem talið er að fjármagni hernaðarbrölt Rússa yfir landamæri. Þarna er hins vegar ólíku saman að jafna. Aðgerðir ESB lutu ekki að neinu leyti að almennum viðskiptum, voru hreinlega ekki viðskiptabann, og munu ekki bitna með nokkrum hætti á almennum borgurum Rússlands eða annarra landa. Gagnaðgerð Rússa miðar hins vegar beint að því að skaða hagsmuni almennings í löndunum sem hún beinist að. Það mun vissulega takast til skamms tíma en til langs tíma verður skaðinn mestur hjá almenningi í Rússlandi. Hinar frjálsu þjóðir munu spjara sig þrátt fyrir viðskiptabann Rússa. Hollensku blóminn og íslenski makríllinn rata til nýrra kaupenda. Markmiði Rússa með viðskiptabanninu verður ekki náð.

En skaðsemi viðskiptahindrana er væntanlega öllum ljós eftir sýnikennslu borgarstjórnar Reykjavíkur þar um. Og nú vilja Píratar bæta um betur og leggja til sniðgöngu vara frá Kína. Er líklegt að kínverskur almenningur fagni því?

Það er aumt að ætla að slá sig til riddara með viðskiptabanni í nafni mannréttinda. Viðskiptabann er atlaga að mannréttindum.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 27. september 2015.