Úrskurðað um rétt jarðeiganda

Í grein í Morgunblaðinu 9. nóvember sl. fjallaði ég um breytingar sem gerðar voru á jarðalögum sumarið 2022 með lögum nr. 74/2022. Þar gagnrýndi ég forkaupsréttarákvæði sem sett var í lögin og tekur til aðilaskipta að eignarhlutum að jörðum sem eru í óskiptri sameign marga. Forkaupsréttur til handa öðrum sameigendum er eitt og sér óásættanleg afskipti af eignarrétti manna og gengur gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti manna. Þegar svo við bætist fordæmalaus fyrirskipun laganna, skv. lagabreytingunni, um að slíkur forkaupsréttur virkjist einnig við erfðir þá er hljóta að hafa orðið mistök við lagasetninguna. Vandinn sem lagabreytingunni var ætla að leysa hefur nú þegar aukist til mikilla muna, vegna forkaupsréttarins. Sýslumenn hafa nú í hátt í tvö ár vísað frá þinglýsingu breyttu eignarhaldi vegna erfða ef ekki liggur fyrir yfirlýsing forkaupsréttarhafa um að þeir ætli ekki að nýta sér forkaupsrétt.

Fleiri en ég hafa hnotið um þessa lagasetning. Nýverið féll úrskurður héraðsdóms um málið.

Með 17 blaðsíðna úrskurði héraðsdóms hefur verið felld úr gildi ákvörðun sýslumanns um að vísa frá þinglýsingu skjali sem er skiptayfirlýsing um eignarhlut erfingja að jörð við skipti á dánarbúi. Um leið var lagt fyrir sýslumann að þinglýsa umræddri skiptayfirlýsingu.

Í úrskurðinum kemur fram að „verulegan vafa má telja hvort almenningsþörf krefji að sett séu svo íþyngjandi forkaupsréttarákvæði, í þeim tilgangi einum að takmarka fjölda sameigenda jarða“. Þá er það niðurstaða dómsins að forkaupsréttur jarðalaga, eins og hann var samþykktur af Alþingi sumarið 2022, verði ekki skilinn með öðrum hætti en að engu máli skipti hver eignarhlutföll eigenda eru, forkaupsréttur virkjist allt að einu. Þannig geti sameigandi að örhluta krafist þess að erfingi að stórum hluta jarðar, eða maki sem fær setu í óskiptu búi, selji sér jörðina, óháð því hvort erfinginn búi á jörðinni og þurfi að flytja búferlum vegna þessa og/eða stundi þar landbúnað svo eitthvað sé nefnt, og óháð því hvort erfingi yfirleitt vilji selja. Þá bendir dómurinn á að óvissa ríki þá um þá málsmeðferð sem við tæki, s.s. hver eigi að leita eftir höfnun forkaupsréttar og um ákvörðun verðs.

Með heildstæðu mati á þessu og fleiru sem týnt er til í dóminum er það sem sagt niðurstaða dómsins að umrædd ákvæði jarðalaga um forkaupsrétt sameigenda þegar um er að ræða að þinglýsa eigi skiptayfirlýsingu dánarbús „séu það óskýr að ekki verði á þeim byggjandi um höfnun þinglýsingar“.

Um þessa niðurstöðu dómsins má deila. Að mínu mati eru ákvæði jarðalaga skýr og sýslumönnum þannig rétt að vísa frá þinglýsingu skjölum sem ekki uppfylla ákvæðin um forkaupsrétt. Lagaákvæðin eru hins vegar hvort tveggja gölluð að formi og óásættanleg að efni eins og dómurinn kemst að niðurstöðu um. Forsendur dómsins lýsa þannig nákvæmlega bæði þeim praktíska ómöguleika sem forkaupsréttarákvæðið er haldið og þeim fyrirvara sem gera verður til slíkra ákvæða sem ætlað er að svipta menn stjórnarskrárvörðum eignarrétti. Um þetta virðast bæði sóknaraðili málsins og sýslumaður sem tók til varna sammála. Og trúlega flestir sem hafa kynnt sér lagabreytinguna.

Lagabreytingin umdeilda var á ábyrgð forsætisráðherra. Sá þáttur sem fjallað var um í úrskurði héraðsdóms heyrir undir matvælaráðuneytið. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um þessa vanhugsuðu lagasetningu hefur matvælaráðuneytið látið hjá líða að hafa forgöngu um að vinda ofan af lagabreytingunni. Þá virðist Alþingi ekki hafa áhuga á að láta málið til sín taka þrátt fyrir að hafa staðið fyrir breytingu á frumvarpi forsætisráðherra sem gerði vont mál verra.

Það er óheppilegt að dómstólar sjái sig knúna til að kveða upp úrskurði sem víkja skýrum lagaákvæðum til hliðar. Dómstólar eiga ekki að setja lög, sama hversu skynsamleg lögin kunna að vera. Rétt er að geta þess að úrskurður þessi fjallar eingöngu um yfirfærslu eignarréttar vegna erfða. Í þessu máli þarf löggjafinn að bregðast skjótt við og afturkalla það sem aldrei hefði átt að verða, forkaupsrétt sameigenda að jörðum í óskiptri sameign.

Next
Next

Uppreist æra í Eftirmálum