Uppreist æra í Eftirmálum

Sumarið 2017 varð mikil umræða um fornt lögfræðilegt fyrirbæri, „uppreist æru“. Ég var þá dómsmálaráðherra.
Umræðan spannst vegna þeirra niðurstöðu dómstóla í júní 2017 að lögmanni sem hafði afplánað dóm vegna kynferðisbrots gegn barni, og misst lögmannsréttindin, ætti að veita lögmannsréttindin aftur enda hefði hann „fengið uppreist æru“ árið áður. Var það upphafið að „uppreist æru málinu“ sumarið 2017.

Ég hafði á því fullan skilning mönnum hafi ofboðið „prjálið“ sem fylgdi því að veita mönnum sem tekið höfðu út refsingu uppreist æru. Sérstök meðferð í ríkisstjórn, að undangenginni undirritun dómsmálaráðherra, og svo undirritun forseta Íslands gat vel gefið til kynna að um væri að ræða einhvers konar upphefð sakamanna fremur en formlegt úrlausnarefni réttarfars.

Ég hafði sjálf neitað að rita undir ósk um uppreist æru á vordögum 2017 með það fyrir augum að breyta fyrirkomulaginu. „Uppreist æru málið“ leiddi að lokum til þess að formenn allra þingflokka lögðu fram lagafrumvarp sem samið var að mínu frumkvæði í dómsmálaráðuneytinu sem kvað á um afnám uppreistar æru. Ég  fékk svo tækifæri til þess að ljúka við þessar breytingar á kjörtímabilinu sem tók við eftir að Björt framtíð hafði slitið ríkisstjórnarsamstarfi vegna málsins. Björt framtíð hlaut 1% fylgi í þingkosningum sem fylgdu í kjölfarið á slitunum.

Uppreist æra er sem sagt ekki lengur veitt. Það varð sem sagt heilmikil breyting. En þó ekki í raun, því eftir sem áður fá sakamenn borgaraleg réttindi sín aftur eftir að afplánun refsidóma. Prjálið við það heyrir hins vegar sögunni til.

Þær stöllur í Eftirmálum, Nadine Guðrún Yaghi og Þórhildur Þorkellsdóttir, óskuðu eftir því að ræða við mig um þessa atburðarás alla sumarið 2017 sem þær minnast sem mjög dramatískri. Ég veit ekki hversu mikið drama þetta allt var, ég reyndi nú hvað ég gat til að halda tilfinningasemi utan við nauðsynlega umræðu um efni og form. Það var hins vegar ekki á mínu valdi að stýra umræðunni. Ég veit hins vegar að sumir sjá eftir stórum orðum sem þeir létu falla. Það eldist ekki allt vel.

Hlaðvarpið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.d. hér á Spotify.

Umfjöllun Vísis um þáttinn má finna hér: visir.is

22. febrúar 2024.

Previous
Previous

Úrskurðað um rétt jarðeiganda

Next
Next

Eignarréttur jarðeigenda skertur